Hætta vegna leysigeisla

11.11.2010

Að gefnu tilefni vill Flugmálastjórn Íslands vekja athygli á hættu sem fylgir því ef leysigeisla er beint að loftförum. Þessi hætta hefur komið í ljós undanfarið og valdið alvarlegum flugatvikum og jafnvel flugslysum.
Leysigeisli sem fellur skyndilega á augu getu valdið blossablindu með eftiráhrifum sem standa yfir í nokkurn tíma og trufla eða koma í veg fyrir að stjórnandi loftfars geti lesið af mælitækjum og greint hluti í umhverfinu.
Sá sem beinir leysigeisla að loftfari stefnir því í bráða hættu auk þess sem slíkt athæfi varðar við 168. gr. almennra hegningarlaga.
Alþjóðflugmálastofnunin hefur gefið út leiðbeiningar til flugmálayfirvalda til að draga úr þessari hættu, m.a. hafa verið gefin út tilmæli um að afmarka ákveðin svæði nálægt flugvöllum þar sem notkun leysisenda er takmörkuð og háð leyfi yfirvalda sem hafa samstarf við viðkomandi flugvöll eða flugumferðaþjónustu um notkun leysisenda. Þetta á t.d. við þegar settar eru upp sýningar eða skemmtanir með notkun leysigeisla. Þeim sem vill halda slíka sýningu er bent á að hafa samband við Flugmálastjórn Íslands.