Úttekt Alþjóðaflugmálastofnunarinnar hafin

19.10.2010

ICAO úttektarliðið frá vinstri Jean Paul Olinescu, Dmitry Kosolapov, Pétur K. Maack flugmálastjóri, RoseMarie Heftberger, Yong Wang og Halla Sigrún Sigurðardóttir

Alþjóðaflugmálastofnunin (ICAO) hóf í morgun úttekt á Flugmálastjórn Íslands.  Úttektin stendur yfir til 28. október 2010 og eru fimm manns í úttektarliðinu undir stjórn Frú RoseMarie Heftberger. Tilgangur úttektarinnar er að gera heildar flugöryggisúttekt á Íslandi. Úttektin byggir á samþykkt frá aðalþingi ICAO 1997 en þá var ákveðið að gerð skyldi úttekt á samræmdan hátt á öllum aðildarríkjum ICAO eða svokölluð "Universal Safety Oversight Audit Programme – USOAP". Þegar hefur verið gerð úttekt á um 160 löndum og er Ísland því meðal síðustu landanna sem gerð verður úttekt á.
Úttekt þessi er, sem gefur að skilja, mjög umfangsmikil og hefur Flugmálastjórn Íslands sem og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti unnið hörðum höndum að undirbúningi hennar undanfarna mánuði. Í úttektinni er farið ítarlega í innleiðingu og framfylgni á 16 af 18 Viðaukum við Chicago sáttmálann. Undanskildir eru Viðauki 9 (Facilitation/Að greiða fyrir flugsamgöngum) og Viðauki 17 (Flugvernd).
Úttektin gengur út á að kanna hvernig ríkjum hefur tekist að innleiða og framfylgja svokölluðum “Eight Critical Elements”.

  • Þessi átta aðalatriði eru:
  • Legislation (Lagasetning)
  • Operation Regulations(Reglugerðir um flugmál)
  • Organizations, SO Functions (Fyrirkomulag eftirlits með flugöryggi)
  • Technical Experts Training (Þjálfun eftirlitsmanna og sérfræðinga)
  • Guidance, Procedures Info (Verklag, leiðbeiningar og upplýsingar)
  • Licencing Certification Obligations (Útgáfa skírteina, vottorða og leyfa)
  • Surveillance Inspection Obligations (Samfelld eftirlitsstarfssemi)
  • Resolution of Safety Concerns (Viðbrögð við frávikum)

Niðurstaða úttektarinnar skiptir mjög miklu máli fyrir flug á Ísland. Önnur jafn ítarleg úttekt verður ekki gerð og mun niðurstaðan fylgja okkur en loka niðurstöður eru opinberar og öllum opnar.
Chicago samningurinn frá 1944 er þjóðréttarsamningur sem 190 ríki heims hafa undirritað og innleitt í löggjöf sína.  Í meginatriðum fjallar hann um réttindi og skyldur ríkja í alþjóðlegum loftsamgöngum og var grundvöllur að stofnun Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO).  Við Chicago samninginn eru 18 viðaukar og ótal leiðbeiningar- og skýringargögn.  Í viðaukunum eru staðlar og leiðbeiningar um verklag (Standards and Recommended Practices).  Samkvæmt 38. gr. Chicago samningsins ber aðildarríkjum að fylgja stöðlunum í hvívetna.  Sjái ríki sér það ekki fært, af einhverjum ástæðum, ber þeim að tilkynna öll frávik til ICAO.  Samsvarandi skuldbinding er ekki fyrir hendi gagnvart leiðbeiningum um verklag í viðaukunum, en aðildarríki eru hvött til að tilkynna þau frávik einnig.  Öll frávik ríkis frá stöðlum eru reglubundið kynnt öðrum aðildarríkjum ICAO.