Nýir loftferðasamningar

20.1.2010

Ísland hefur gerst aðili að loftferðasamningi Evrópusambandsins og Bandaríkjanna sem skrifað var undir í apríl 2007 og tók gildi vorið 2008. Samningurinn veitir íslenskum flugrekendum sama rétt og flugrekendum í aðildarríkum Evrópusambandsins til farþega- og fraktflugs milli Evrópu og Bandaríkjanna. Er þeim heimilt að fljúga milli hvaða borga sem er í Evrópu og í Bandaríkjunum. Þá veitir samningurinn aukna möguleika á samstarfi milli flugfélaga beggja vegna Atlantshafsins svo sem til samvinnu um flugleiðir og leigu flugvéla svo og til eignarhalds evrópskra félaga í Bandaríkjunum og öfugt.
Þá hefur Ísland undirritað loftferðarsamning við Indland og er það fyrsti samningur ríkjanna á þessu sviði.  Samningurinn heimilar flugrekendum ríkjanna að stunda áætlunarflug með farþega til tveggja ákvörðunarstaða í hvoru ríki auk áfanga- og viðkomustaða á flugleiðinni sem og víðtækra heimilda fyrir fraktflug. Samningurinn opnar einnig möguleika fyrir íslenska flugrekendur til að bjóða upp á leiguflug milli Íslands og Indlands. Þá styrkir samningurinn við Indland möguleika íslenskra flugrekenda sem hafa sinnt og vilja sinna verkefnum í þessum heimshluta.
Á síðasta ári voru loftferðasamningar áritaðir við eftirtalin ríki: Víetnam, Kúveit, Aserbaídsjan, Túrkmenistan, Sýrland, Dóminíska lýðveldið og Tyrkland.