Flugstoðir ohf. og Keflavíkurflugvöllur ohf. fá starfsleyfi

29.5.2009

Starfsleyfin afhent, frá vinstri: Björn ÓIi Hauksson, forstjóri Keflavíkurflugvallar, Theodór Freyr Hervarsson, framkvæmdastjóri eftirlits- og spásviðs hjá Veðurstofu Íslands, Kristján L. Möller samgönguráðherra, Brandur St. Guðmundsson, framkvæmdastjóri Flugfjarskipta, Þorgeir Pálsson, forstjóri Flugstoða og Reynir Sigurðsson, framkvæmdastjóri flugleiðsögu- og flugvallasviðs Flugmálastjórnar Íslands.Samgönguráðherra, Kristján L. Möller, afhenti í dag fyrir hönd Flugmálastjórnar Íslands, við hátíðlega athöfn, Flugstoðum ohf. og Keflavíkurflugvelli ohf. starfsleyfi til að veita þjónustu á sviði flugleiðsögu auk þess sem ráðherra afhenti Keflavíkurflugvelli, fyrir hönd Flugmálastjórnar Íslands, flugvallarskírteini sem felur í sér heimild til reksturs flugvallar í flokki 1 til fimm ára.

Ný íslensk reglugerð nr. 631/2008 um starfsleyfi flugleiðsöguþjónustu, þar sem innleidd var reglugerð Evrópusambandsins, felur í sér að í dag þurfa þeir sem æskja þess að starfrækja flugleiðsöguþjónustu að sækja um starfsleyfi til Flugmálastjórnar Íslands (FMS).  FMS sem sinnir hlutverki tilnefnds eftirlitsstjórnvalds, skal með vottun sinni tryggja að viðkomandi fyrirtæki uppfylli kröfur reglugerðarinnar.  Með þessu hafa kröfur til veitenda flugleiðsöguþjónustu innan Evrópu og samevrópska loftrýmisins verið samræmdar.

Í dag hafa fjögur íslensk fyrirtæki starfsleyfi til að veita þjónustu á sviði flugleiðsögu, Flugstoðir ohf., Keflavíkurflugvöllur ohf., Veðurstofa Íslands og Flugfjarskipti ehf. en tvö síðastnefndu fyrirtækin fengu sín starfsleyfi í desember 2008.

Mikil vinna liggur að baki starfsleyfum hjá umsækjendum og ekki síður hjá Flugmálastjórn en undirbúningur hófst í byrjun árs 2007 þegar settur var á stofn starfshópur innan FMS sem hafði það verkefni að greina kröfur og setja verklagsreglur.  Mikil og náin samvinna hefur verið í umsóknarferlinu á milli Flugmálastjórnar og fyrirtækjanna við að aðlaga handbækur að nýjum kröfum og nýju umhverfi og þar með að sýna fram á uppfyllingu reglugerðarinnar.

Þá er Keflavíkurflugvöllur ohf. fyrsti flugvöllur landsins til að fá flugvallarskírteini afhent til fimm ára og er flugvöllurinn þar með vottaður skv. Rg. nr. 464 um flugvelli frá árinu 2007. Vottun flugvalla á Íslandi hófst árið 2004 en þá var reglugerð um flugvelli fyrst gefin út hérlendis. Reglugerðin endurspeglar að mestu leyti Viðauka 14, Hluta I og II við Chicago sáttmálann hvað varðar flugvelli í flokki I.

Flugmálastjórn Íslands óskar Flugstoðum ohf. og Keflavíkurflugvelli ohf. til hamingju með áfangann.