Keilir með starfsleyfi til kennslu í flugumferðarstjórn

22.4.2009

Keilir hefur fengið starfsleyfi til kennslu í flugumferðarstjórn samkvæmt nýrri reglugerð nr. 404/2008.  Fram til október 2008 hefur allt nám flugumferðarstjóra farið fram á vegum þeirra sem veita flugumferðarþjónustu sem í dag eru Flugstoðir ohf. og Keflavíkurflugvöllur ohf.  Nú geta aðrir skólar, sem uppfylla kröfur reglugerðar 404/2008, fengið kennsluleyfi frá Flugmálastjórn Íslands til að kenna  grunnnám í flugumferðarstjórn og hefur Keilir nú slíka heimild ásamt Flugskóla Íslands.

Kennsluleyfi Keilis nær til grunnþjálfunar flugumferðarstjóra.  Þetta er stór áfangi í uppbyggingu flugakademíu Keilis og mun fyrsti hópurinn útskrifast úr náminu í vor.
Flugmálastjórn Íslands óskar Keili til hamingju með áfangann.