Breytingar varðandi hlustun á neyðarsenda

2.2.2009

Athygli er vakin á því að 1. febrúar 2009 mun COSPAS/SARSAT gervihnattakerfið formlega hætta hlustun og úrvinnslu á merkjum sjálfvirkra neyðarsenda á tíðnunum 121,5 og 243 MHz. Frá 1. febrúar 2009 verður því formlega einungis hlustun og úrvinnsla á merkjum á tíðninni 406 MHz sbr. C-NOTAM nr. 0005/09 BIRD COSPAS/SARSAT . Sjá nánar http://www.cospas-sarsat.org/MainPages/indexEnglish.htm

Frá 1. febrúar 2009 mun flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík því einungis berast boð um senda á 121,5 MHz ef þau eru innan drægis frá móttökustöðvum á Reykjavíkurflugvelli og Vaðlaheiði. Einnig munu áfram berast boð um merki á tíðninni 121,5 MHz þegar flugvélar á flugi heyra í þeim og tilkynna það.

Á Íslandi er nú unnið að reglugerðarbreytingu varðandi kröfur um nýju neyðarsendana og munu þær breytingar verða kynntar fljótlega.

    Í meginatriðum er gert ráð fyrir að kröfurnar verði svohljóðandi:
  • Íslenskar flugvélar, eða flugvélar á vegum íslenskra aðila notaðar til einkaflugs og hafa fengið lofthæfiskírteini fyrir 1. júlí 2008 skulu búnar neyðarsendi, ELT. Flugmálastjórn Íslands getur veitt undanþágu til notkunar á sjálfvirkum sendi fyrir flugvélar sem sendir eingöngu á tíðninni 121.5 MHz að hámarki til 1. febrúar 2010.
  • Íslenskar flugvélar, eða flugvélar á vegum íslenskra aðila notaðar til einkaflugs og hafa fengið lofthæfiskírteini eftir 1. júlí 2008 skulu búnar sjálfvirkum neyðarsendi, ELT (AF).
  • Íslenskar flugvélar, eða flugvélar á vegum íslenskra aðila notaðar til verk- og kennsluflugs skulu búnar sjálfvirkum neyðarsendi, ELT (AF). Flugmálastjórn Íslands getur veitt undanþágu til notkunar á sjálfvirkum sendi fyrir flugvélar notaðar til verk- og kennsluflugs sem sendir eingöngu á tíðninni 121.5 MHz að hámarki til 1. október 2009.

Þess má geta að krafan um 406 MHz neyðarsenda hefur nú þegar tekið gildi t.d. í Danmörku og Svíþjóð. Málið er í undirbúningi í Kanada og víðar. Flugvélaeigendur eru hvattir til að huga að þessu máli og og koma sér upp þessari nýju gerð neyðarsenda við fyrsta tækifæri til tryggja að bestu mögulegu upplýsingar séu tiltækar þegar reynir á leit og björgun.