Ísland í fararbroddi við að miðla gögnum inn í flugatvikagrunn Evrópusambandsins

15.4.2008

Fyrir nokkrum árum hófu Evrópuríkin að skrá  flugatvik í sérhannaðan gagnagrunn Evrópusambandsins (ECCAIRS) í hverju landi fyrir sig.
Þetta er gert í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og Evrópuráðsins. Í framhaldi var íslensku loftferðalögunum var breytt til að tryggja með ótvíræðum hætti nafnleynd þess er tilkynnir flugatvik.  Sérstök íslensk reglugerð um tilkynningu flugatvika var jafnframt gefin út.  Rétt er að hafa í huga að flugslys og alvarleg flugatvik ber að tilkynna bæði til Flugmálastjórnar Íslands og Rannsóknarnefndar flugslysa.

Til að þessi skráning flugatvika komi að fullu gagni til greiningar er ætlunin að öll ríkin skrái síðan þessi flugatvik í einn miðlægan gagngrunn sem þau hafa síðan aðgang að. Þess ber að geta að gögnin eru mjög vel varðveitt (dulkóðuð) og aðgangur að þeim háður ströngum skilyrðum. Engar persónurekjanlegar upplýsingar eru í þessum grunni.
Í fyrra hófust tilraunasendingar á íslenskum flugatvikum til Joint Research Centre (JRC) á Ítalíu sem heldur utan um miðlæga gagnagrunninn sem mun geyma öll tilkynnt flugatvik í Evrópu og gengu þær tilraunir vel. Síðari hluta ársins 2007 var síðan hafist handa við að miðla gögnunum beint inn í þenna miðlæga grunn.

Ísland var því fyrsta landið til að ná þessum áfanga. Þjóðir eins og Frakkland, Þýskaland og Búlgaría eru nú í tilraunasendingum og munu fleiri þjóðir bætast við þann hóp á næstunni. Gert er ráð fyrir að allar þjóðir Evrópu verði byrjaðar að miðla flugatvikunum sínum fyrir lok þessa árs.


Þessum mikla áfanga hefði ekki verið náð nema fyrir samstarfsvilja íslenskra flugrekenda og flugmanna og vill Flugmálastjórn Íslands þakka þeim fyrir að taka þátt í þessu átaki. Aðaláherslan hefur verið, til að byrja með, á að skrá atvik í atvinnuflugi. Nú er áherslan lögð á að allir flugmenn, bæði einka- og atvinnuflugmenn, flugumferðarstjórar, flugvirkjar og starfsmenn flugvalla tilkynni flugatvik í samræmi við reglugerð 53/2006.
Það er allra hagur að tilkynna flugatvik, því komi upp leitni (ákveðið mynstur) í gögnunum er varðar t.d. ákveðnar flugvélategundir er hægt að grípa inn í með þjálfun eða breyttu verklagi og þannig auka enn frekar öryggi í flugi. Taka ber fram að því meiri upplýsingar sem flugmenn, flugumferðarstjórar, flugvirkjar og starfsmenn flugvalla veita því meira gagn verður af grunninum.
Á vef Flugmálastjórnar munu svo birtast almennar tölfræðilegar upplýsingar er varða tilkynnt flugatvik.

Sjá nánar –  Spurt og svarað um tilkynningar flugatvika.