Frá skírteinadeild - krafa um skráningu á tungumálakunnáttu

13.2.2008

 

Ný krafa um að prófa og skrá tungumálakunnáttu í skírteini flugmanna fyrir 5. mars 2008 er nú í stöðlum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, ICAO Annex 1 og í kröfum Flugöryggissamtaka Evrópu,  JAR-FCL.

Flugmálastjórn hefur því ákveðið að gefa út, til að byrja með,  viðhengi við öll skírteini flugmanna til að uppfylla þessar kröfur fyrir 5. mars n.k.  Viðhengin þurfa flugmenn að bera með skírteininu.  Síðan mun þetta smám saman verða skráð í skírteinin jafnóðum og þau berast Flugmálastjórn til framlengingar/ endurútgáfu eða skráningar réttinda.

Í kröfunum kemur fram að allir sem nú þegar eru handhafar flugmannsskírteinis með talstöðvaréttindi í ensku  munu njóta s.k. hefðarréttar og fá skráð í það kunnáttustig 4 í ensku,  s.k. starfrækslustig/tjáningarstig,  og þurfa því ekki að gangast undir próf. Stigin eru 6 og mun Flugmálastjórn Íslands veita Íslendingum stig 6 í íslenskukunnáttu.  Önnur tungumál mun Flugmálastjórn Íslands ekki skrá.

Allir handhafar íslenskra flugmannsskírteina, bæði einkaflugmenn og atvinnuflugmenn sem ekki starfa hjá íslenskum flugrekendum,  geta sótt viðhengið við skírteini sitt í skírteinadeild flugöryggissviðs Flugmálastjórnar í Skógarhlíð 12 frá og með 1. mars n.k.

Frá 5. mars n.k. þarf að bera viðhengið með skírteininu þar sem það er hluti þess
.  


Flugnemar sem sækja um skírteini eftir 1. mars n.k. þurfa að gangast undir sérstakt enskupróf og er bent á að hafa samband við Flugskóla Íslands varðandi þetta próf. Þetta gildir þó ekki um flugnema sem sækja um einkaflugmannsskírteini og ætla eingöngu að fljúga á Íslandi.

Flugmenn starfandi hjá íslenskum flugrekendum fá viðhengi við skírteini sín afhent hjá viðkomandi flugrekanda á næstu dögum.