Upplýsingaspjald um réttindi flugfarþega

3.7.2019

Shutterstock_1079728802.A Samgöngustofa hefur gefið út upplýsingaspjald um réttindi flugfarþega. Upplýsingaspjaldið byggir á ESB reglugerð nr. 261/2004 en þar kemur meðal annars fram að flugrekendum er skylt að upplýsa flugfarþega um réttindi þeirra ef kemur til tafa, seinkanna eða þegar flugi er aflýst. 

Á upplýsingaspjaldinu er t.d. tilgreint hver réttindi farþega eru þegar þeim er neitað um flugfar, flugi er aflýst, seinkun verður á flugi eða það á sér stað niðurfærsla á farrými. Einnig kemur fram að við aflýsingu flugs geta farþegar átt rétt á skaðabótum frá 125 til 600 evrur og við seinkun flugs eiga farþegar rétt á máltíð og hressingu í samræmi við lengd tafar. Spjaldið má nálgast rafrænt á vef Samgöngustofu og auðvelt er að prenta það út, afhenda flugfarþegum og hengja upp sem veggspjald.

Á vef Samgöngustofu er einnig hægt að nálgast ítarlegri upplýsingar um réttindi flugfarþega. Þar er m.a. hægt að fá svör við spurningum um hvort flugfarþegi eigi rétt á bótum og hvernig sækja skuli þann rétt. Þar eru leiðbeiningar um með hvaða hætti skuli bera fram kvörtun og hver réttur viðkomandi er verði seinkun á farangri, hann týnist eða verður fyrir tjóni. Einnig eru þar upplýsingar um hvernig fólk getur leitað úrskurðar um rétt sinn hjá Samgöngustofu sé það ósátt við niðurstöðu og ákvörðun tiltekins flugfélags.

Upplýsingaspjald Samgöngustofu mun auðvelda flugfélögum og öðrum hlutaðeigandi að sinna skyldu sinni með því t.d. að prenta spjaldið út og afhenda farþegum þegar ástæða er til. Þetta er mikilvægt neytendamál sem rík áhersla er lögð á í starfi Samgöngustofu.