Rafræn flugpróf

16.12.2014

Eftir áramót verða tekin í gagnið rafræn flugpróf hjá Samgöngustofu og er það liður í markmiði um aukna rafræna þjónustu. Sú breyting gerir stofnuninni kleift að koma til móts við þá miklu fjölgun sem orðið hefur undanfarin ár í skráningum í bókleg próf og tryggja nægjanlegt prófaframboð. Samhliða hyggst Samgöngustofa auka gæði prófa, t.d. með betri framsetningu og uppfærðum spurningum fyrir einkaflugmannspróf. Þá er það mat stofnunarinnar að framkvæmd prófa verði umhverfisvænni, hagkvæmari og skilvirkari með þessum hætti.

Samgöngustofa hefur náð samkomulagi við Promennt ehf. um aðstöðu fyrir prófahald og verða prófin í húsakynnum þeirra í Skeifunni 11b frá og með janúarmánuði 2015. Nánari upplýsingar varðandi skráningar í próf, próftöflur og prófreglur eru birtar hér. 

Að svo stöddu er eina samþykkta aðstaðan fyrir rafræn flugpróf hjá Promennt ehf. og því ekki hægt að þreyta prófin annars staðar enn sem komið er.