Reglugerð um takmarkanir fyrir ferðamenn utan Schengen

21.3.2020

Meðfylgjandi er tilkynning frá dómsmálaráðuneytinu um innleiðingu á tilmælum leiðtogaráðs Evrópusambandsins til allra aðilarríkja sambandsins og annarra ríkja Schengen samstarfsins um að draga úr tímabundið úr ferðum fólks inn á Schengen svæðið í því skyni að hægja á útbreiðslu kórónuveirunnar. Gildistími er til 17. apríl 2020.

Tilkynning dómsmálaráðuneytisins á íslensku
Tilkynning dómsmálaráðuneytisins á ensku

Reglugerð um breytingu á reglugerð um för yfir landamæri, nr. 866/2017

Reglugerðin á ensku

Tilkynningin frá dómsmálaráðuneytinu 20. mars 2020:

„Ráðherra kynnti í morgun í ríkisstjórn drög að reglugerð sem fyrirhugað er að gefa út í dag. Með henni verður útlendingum, sem hvorki eru EES- né EFTA-borgarar, óheimilt að koma til landsins nema þeir geti sýnt fram á að för þeirra sé vegna brýnna erinda.

Ríkisborgarar Schengen svæðisins og aðstandendur þeirra munu áfram geta komið óhindrað inn á svæðið og er sérstaklega kveðið á um að útlendingar sem hafa dvalar- eða búseturétt innan svæðisins eigi einnig rétt á að koma. Þá eru ákveðnar starfsstéttir undanþegnar takmörkunum, þ. á m. starfsfólk á sviði heilbrigðisþjónustu og þeir sem sinna farmflutningum.

Reglugerðin er sett í kjölfar þess að þann 17. mars samþykkti leiðtogaráð Evrópusambandsins tilmæli til allra aðildarríkja sambandsins og annarra ríkja Schengen samstarfsins um að draga tímabundið úr ferðum fólks inn á Schengen svæðið í því skyni að hægja á útbreiðslu kórónaveirunnar. Tilmælin, sem gilda í 30 daga, kveða á um að takmarka skuli komur þriðju ríkisborgara inn á svæðið við nauðsynlegar erindagjörðir.

Tilmælin eru gefin út í kjölfar þess að mörg aðildarríki Evrópusambandsins hafa að undanförnu tekið upp tímabundið landamæraeftirlit, bæði á ytri landamærum þess og á innri landamærunum, þ.e. innan Schengen svæðisins. Megintilgangur þessara takmarkana er að draga úr útbreiðslu COVID-19 veirunnar, en með því að takmarka ferðir inn á Schengen svæðið, þ.e. á ytri landamærum þess, er jafnframt stuðlað að því að viðkomandi ríki opni sem fyrst að nýju innri landamæri þess og stuðli þannig að áframhaldandi frjálsri för fólks, vöru og þjónustu innan svæðisins.

Áhrif þessa næstu vikurnar verða væntanlega takmörkuð, enda er komum ferðamanna hingað til lands nú þegar að langmestu leyti sjálfhætt vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar. Áréttað skal að tilmælin snúa að framkvæmd á landamæraeftirliti en hafa ekki bein áhrif á heimildir flugfélaga til að fljúga til landsins eða á heimildir til vöruflutningi með flugfrakt.“