Réttindi flugfarþega

20.12.2022

001_GSS_1755 Í ljósi fréttaflutnings vegna tafa og aflýsinga á flugi vegna óveðurs að undanförnu vill Samgöngustofa vekja athygli á þeim réttindum sem flugfarþegar hafa og sérstöku upplýsingaspjaldi um þau réttindi.

Upplýsingaspjaldið byggir á réttindum flugfarþega samkvæmt reglugerð EB nr. 261/2004 um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem er neitað um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður en þar kemur meðal annars fram að flugrekendum er skylt að upplýsa flugfarþega um réttindi þeirra samkvæmt reglugerðinni í þeim tilvikum þegar röskun verður á flugi, þ. á m. þegar flugi er aflýst.

Upplýsingarspjaldið má nálgast rafrænt á vef Samgöngustofu og auðvelt er að prenta það út, afhenda flugfarþegum og hengja upp sem veggspjald.

Á vef Samgöngustofu er einnig hægt að nálgast ítarlegri upplýsingar um réttindi flugfarþega . Þar er m.a. hægt að fá svör við spurningum um hvort flugfarþegi eigi rétt á bótum og hvernig sækja skuli þann rétt. Einnig eru þar upplýsingar um hvernig hægt er að senda kvörtun til Samgöngustofu sé farþegi ósáttur við svör tiltekins flugfélags varðandi réttindi farþega á grundvelli reglugerðar EB nr. 261/2004.

Ef spurningar vakna má senda fyrirspurnir á neytendur@samgongustofa.is.