Skýrsla Ríkisendurskoðunar um fall Wow air
Samgöngustofa fagnar afléttingu trúnaðar af úttektarskýrslu Ríkisendurskoðunar um fall Wow air og þar með tækifæri til opinnar umræðu um efnisatriði hennar.
Eitt af meginverkefnum Samgöngustofu og þungamiðjan í fjárhagslegu eftirliti með flugrekendum er að tryggja flugöryggi. Á síðustu rekstrarmánuðum Wow air var tekist á við afar krefjandi verkefni um eftirlit og mat á ráðstöfunum við fjárhagslega endurskipulagningu félagsins. Í því ferli lék aldrei vafi á um örugga starfrækslu loftfara félagsins. Með því var mikilvægasta tilganginum náð.
Flugrekstur er flókinn og felur í sér mjög sérhæft rekstrarumhverfi. Sérstök athygli beindist að rekstarstöðu Wow air þegar í maí 2018, þegar vísbendingar voru um mögulegar þrengingar. Fjárhagslegt eftirlit jókst svo eftir því sem á leið og þörfin óx, uns það var stöðugt með nær daglegum fundum og skýrslugerðum. Stofnunin naut við það verkefni liðsinnis óháðra ráðgjafa á sviði endurskoðunar og fjármálalögfræði.
Samgöngustofa tekur hins vegar undir gagnrýni Ríkisendurskoðunar um að formlegt ferli hefði þurft að vera skýrara þannig að stofnunin tilkynnti formlega um sérstakt eftirlit með fjárhagsstöðu Wow air um leið og það hófst. Að sama skapi hefði Samgöngustofa mátt hafa skýrara frumkvæði gagnvart samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu varðandi tilkynningu um sérstakt fjárhagseftirlit með flugrekandanum. Úr þessum vanköntum hefur verið bætt með endurskoðun viðeigandi verkferla.
Við fjárhagslega endurskipulagningu eins og þá sem um ræðir getur takmörkun flugrekstrarleyfis eða tímabundin afturköllun þess komið til álita. Það er mat stofnunarinnar að á meðan raunhæf áform um endurskipulagningu reksturs eru til staðar sé slíkt ekki hentugt verkfæri og geti jafnvel haft afgerandi og neikvæð áhrif.
Raunhæfar áætlanir um fjárhagslega endurskipulagningu fela á hverjum tíma í sér væntingar um árangur innan tiltekinna tímamarka. Á því tímabili sem endurskipulagning Wow air stóð yfir drógust umsvif félagsins verulega saman og þar með sá farþegafjöldi sem rekstrarstöðvunin að lokum snerti með beinum hætti.
Með reynslunni af falli Wow air og úttekt Ríkisendurskoðunar felast tækifæri til lærdóms og frekari umbóta. Samgöngustofa ítrekar mikilvægi þess að í eftirliti með rekstri Wow air hafi mikilvægasta markmiðið náðst, að tryggja flugöryggi á hverjum tíma. Stofnunin mun greina niðurstöðurnar með hliðsjón af núverandi verkferlum sem þegar hafa verið uppfærðir í þá átt sem tillögur Ríkisendurskoðunar beinast að.