Starfræksla loftfara í tenglum við eldgosið á Reykjanesi
Samgöngustofa hefur sinnt eftirliti með loftflutningum í tengslum við flug í kringum eldstöðvarnar. Markmiðið er að flug gangi snurðulaust fyrir sig og að fyllsta öryggis sé gætt. Fylgst er með að eftir öllum reglum sé farið í hvívetna til að forða flugatvikum og slysum og tryggja samkeppnisstöðu aðila.
Áhersla hefur verið lögð á að hafa eftirlit með því að flugmenn tryggi að loftför séu starfrækt innan þyngdartakmarkana og að útbúnaður loftfara sé samkvæmt gildandi reglugerðum. Þá hefur verið fylgst með leyfisskyldri starfsemi sem varðar fólksflutninga í flugi en Samgöngustofu hefur borist ábendingar um að flugmenn hafi stundað slíka starfsemi án flugrekstrarleyfis.
Í því sambandi bendir Samgöngustofa á að mun ítarlegri flugöryggislegar kröfur eru gerðar til handhafa flugrekstrarleyfa til þess að tryggja með sem bestum hætti öryggi viðskiptavina sem kaupa sér þjónustu af flugrekendum, heldur en þær kröfur sem gerðar eru til einkaflugs. Þá er ekki gerð krafa um slysatryggingu farþega í kennslu- og einkaflugi og því ekki sjálfgefið að slík trygging sé til staðar í einkaflugi.
Með vísan til framangreinds er það flugöryggi almennings sem liggur til grundvallar því að ekki er heimilt að fljúga með farþega gegn gjaldi án þess að gilt flugrekstrarleyfi sé til staðar.
Bent er á að þó er mögulegt innan ramma einkaflugs að skipta kostnaði milli farþega og flugmanns sbr. upplýsingar á vef Samgöngustofu:
Flug með farþega gegn gjaldi | Samgöngustofa (samgongustofa.is)
Samgöngustofa minnir á ábyrgð flugstjóra1 sem felst m.a. í eftirfarandi:
- að loftfarið sé lofthæft
- að mælitæki og búnaður sem krafist er fyrir framkvæmd þess flugs sé uppsettur í loftfarinu og starfhæf
- að massi loftfarsins og staðsetning þyngdarmiðju séu þannig að flugið geti farið fram innan þeirra takmarkana sem mælt er fyrir í lofthæfiskjölum
- farþegalisti sem skilja skal eftir í brottfararflughöfn2
1 NCO.GEN.105 (rg. ESB 800/2013)
2 lög um loftferðir nr. 60/1998, 19. gr. (f)