Tilkynning um Air Berlin

24.10.2017

Þýska flugmálastjórnin hefur tilkynnt að flugrekandinn Air Berlin PlC & Co muni ekki starfa eftir 28. október nk.  Eftir þann tíma munu engin flug undir IATA kóða (Alþjóðasamband flugfélag) AB verða starfrækt.

Við þessar sérstöku aðstæður munu flugrekendurnir: Lufthansa, Eurowings, SWISS og Austrian Airlines bjóða strandaglópum Air Berlin upp á heimflug frá 28. október til 15. nóvember.  Þeir farþegar sem nýta sér þennan möguleika munu í kjölfarið fá helming heildarverðs nýja flugmiðans endurgreiddan.

Þetta tilboð á við innan Evrópu en ekki innanlandsflug í Þýskalandi.  Þar sem Air Berlin hefur þegar hætt flugi á lengri leiðum frá 15. október sl. og hefur tilkynnt að engir strandaglópar séu á lengri flugleiðum þá á þetta tilboð ekki við þar. Upplýsingar um þessi sérkjör verða kynnt á síðum þessara flugrekanda.

Krafa um endurgreiðslu frá farþega verður að hafa borist fyrir 15. desember nk. Farþegum er bent á að sækja skal um bætur/endurgreiðslu farmiða eða endurgreiðslu kostnaðar hjá Air Berlin (http://www.airberlin.com/feedback).  

Réttarstaða er mismunandi eftir því hvenær miðar voru keyptir:

Ef miðar voru keyptir fyrir 15. ágúst sl., þ.e. áður en félagið var lýst gjaldþrota, þá þarf að sækja um bætur eða endurgreiðslu í þrotabúið.  Með því að leggja inn kvörtun  hjá Air Berlin fást leiðbeiningar um hvernig á að sækja í þrotabúið.

Ef miðar voru eftir 15. ágúst sl., eftir að þýska ríkið tók við rekstri félagsins þá hefur þýska flugmálastjórnin fullyrt að Air Berlin muni standa við allar sínar skuldbindingar gagnvart farþegum, þ.e. greiðslu bóta og endurgreiðslu kostnaðar.  Sækja þarf um hvorutveggja til Air Berlin (http://www.airberlin.com/feedback).