Vegna eldgoss á Reykjanesi

4.3.2021

Þegar eldgos hefst á Íslandi er farið eftir fyrirfram ákveðnum viðbragðsáætlunum og verklagi er varðar flug. Ef til eldgoss á Reykjanesi kemur fer eftirfarandi atburðarrás m.a. af stað:

  • Isavia ANS skilgreinir 120 sjómílna (Nautical Miles) hættusvæði (danger area) umhverfis eldgosið og leiðbeinir loftförum út úr því svæði.
  • Veðurstofa Íslands gefur út svokallað SIGMET með öskusvæði og í kjölfarið afléttir Isavia ANS 120 sjómílna hættusvæðinu umhverfis eldgosið ef ekki er talin ástæða til að loka loftrými vegna öryggi loftfara.
  • Isavia ANS gefur út langtíma NOTAM (tilkynning til flugmanna þar sem koma fram þær upplýsingar sem vitað er um eldgosið) í samræmi við SIGMET frá VÍ með gagnlegum upplýsingum fyrir flugmenn og flugrekendur, t.d. hvaða eldstöð um ræðir og hvar upplýsingar um öskudreifingu er að finna. Sé ástæða til að loka loftrými í nánasta umhverfi eldgoss, til að tryggja öryggi loftfara, hefur Isavia ANS það hlutverk og heimildir til þess.
  • Þegar upplýsingar um öskumengað loftrými liggja fyrir geta flugrekstraraðilar sem hafa framkvæmt áhættumat fyrir flug í öskumenguðu loftrými (sem samþykkt er af eftirlitsaðila) tekið ákvörðun um hvort þeir fljúgi í öskumenguðu loftrými á eigin ábyrgð.

Hlutverk helstu stofnana komi til eldgoss

Samgöngustofa fer með stjórnsýslu og eftirlit með samgöngum, þar með talið flugstarfsemi. Samgöngustofa sinnir eftirliti með íslenskum flugrekendum og einnig Isavia ANS sem sinnir flugumferðarþjónustu og Veðurstofu Íslands sem veitir flugveðurþjónustu.

Isavia ANS sinnir flugumferðarþjónustu og upplýsingaþjónustu flugmála og veitir nauðsynlegar upplýsingar komi til eldgoss, þar á meðal með útgáfu svokallaðs NOTAM sem er sérstök tilkynning ætluð flugmönnum. Nánari upplýsingar má finna á vef Isavia ANS.

Veðurstofa Íslands vaktar eldvirkni og komi til eldgoss mun Veðurstofan gefa út upplýsingar um hvar ösku er að finna í andrúmsloftinu eða hvar ösku er spáð. Í því skyni gefur Veðurstofan út svokallað SIGMET. Allar nánari upplýsingar er að finna á vef Veðurstofunnar www.vedur.is og www.vedur.is/vedur/flugvedur/sigmet.

Ofangreindir aðilar hafa undanfarna daga yfirfarið sínar viðbragðsáætlanir og fylgist Samgöngustofa grannt með framgangi mála.

Um réttindi farþega vegna niðurfellds flug af völdum náttúruhamfara má lesa á vef Samgöngustofu.