Vegna umfjöllunar um skýrslu Ríkisendurskoðunar

15.4.2021

Samgöngustofa telur jákvætt að úttekt Ríkisendurskoðunar um fall Wow air sé lokið. Verkefnið hófst í október 2019 og á öllum stigum var lögð áhersla á gott samstarf og aðgengi að nauðsynlegum gögnum.

Flugöryggi er eitt af meginverkefnum Samgöngustofu og þungamiðjan í fjárhagslegu eftirliti stofnunarinnar með flugrekendum. Í þessu tiltekna máli tókst starfsfólk Samgöngustofu á við afar krefjandi verkefni af fagmennsku og heilindum. Það fólst meðal annars í eftirliti og mati á ráðstöfunum í fjárhagslegri endurskipulagningu eins stærsta flugfélags landsins, án þess að flugöryggi væri nokkru sinni stefnt í hættu.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar var send til Samgöngustofu sem trúnaðarmál. Trúnaði verður aflétt og skýrslan birt á vef Ríkisendurskoðunar þegar Alþingi hefur tekið hana til afgreiðslu í viðeigandi þingnefnd. Samgöngustofa mun þá eins og endranær veita greið svör verði eftir þeim leitað.