Vottun íslenskra flugvalla

4.1.2018

Hinn 22. desember sl. voru fjórir flugvellir sem Isavia rekur fyrir íslenska ríkið, vottaðir af Samgöngustofu. Krafan um vottun er skv. evrópskri reglugerð sem gildir hér á landi og tekur til tækni- og öryggismála í starfrækslu flugvalla. 
Flugvellirnir fjórir sem um ræðir eru Akureyrarflugvöllur, Egilsstaðaflugvöllur, Keflavíkurflugvöllur og Reykjavíkurflugvöllur.
Sam-evrópsku reglurnar gilda frá 1. janúar 2018 og ber þá flugmálayfirvöldum 32 aðildarríkja ESB og EFTA að staðfesta við Evrópsku flugöryggisstofnunina (EASA) að flugvellirnir séu vottaðir. Reglunum ber að tryggja að flugvellir í ríkjunum uppfylli sömu kröfur um tækniforskriftir, starfrækslu, stjórnun og skipulagsheild en slíkt er forsenda þess að fá að starfa á sameiginlega evrópska markaðnum.

Vottun-flugvalla

Afhending flugvallaskírteinanna um vottun fór fram við hátíðlega athöfn í húsakynnum Samgöngustofu. Á myndinni eru frá vinstri: Þórólfur Árnason, Guðjón Atlason, Þröstur V. Söring, Ingólfur Gissurarson, Jón Karl Ólafsson, Kristín Helga Markúsdóttir, Björn Óli Hauksson, Helga Ragnheiður Eyjólfsdóttir, Kjartan Maack, Sigrún Henríetta Kristjánsdóttir og Atle Vivås.