Aðgerðir IMO vegna flutningaskipa nálægt stríðsátökum í Úkraínu

11.3.2022

Á aukafundi ráðs Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO Council) samþykktu aðilar að ráðinu að fela forstjóra IMO að skilgreina nú þegar örugga siglingaleið frá stríðshrjáðum hafsvæðum í Svartahafi og Azov-hafi í því skyni að gefa flutningaskipum frá ýmsum löndum ásamt skipverjum um borð í þeim tækifæri til að sigla brott frá svæðinu. Mikil samstaða var meðal aðildarríkja IMO um málið enda grafalvarleg staða fyrir farmenn.

Ísland studdi skjöl sem lögð voru fram sem fela m.a. í sér aðgerðir til aukins öryggis og verndar farmönnum, alþjóðlegum sjóflutningum og umhverfi sjávar í Svartahafi. Ráðið fordæmdi ofbeldisaðgerðir Rússa gegn sjálfstæðu og fullvalda ríki innan Sameinuðu þjóðanna og að látið yrði af þessum árásum á Úkraínu.