Atvinnuréttindi sjófarenda á meðan COVID-19 faraldurinn stendur yfir

26.3.2020

Atvinnuréttindi sjófarenda 

Samgöngustofa tekur við rafrænum umsóknum um atvinnuskírteini sjómanna og afgreiðir fullnægjandi umsóknir. Öll skírteini eru send í pósti, ekki er í boði að sækja skírteini til Samgöngustofu.

STCW-F atvinnuskírteini á fiskiskip 

Sjómenn sem geta fengið útgefið læknisvottorð um sjón, heyrn og heilbrigði sjómanna hjá sinni heilsugæslu sækja um eins og venjulega. Sé sjómanni ógerlegt að útvega læknisvottorð um sjón, heyrn og heilbrigði sjómanna vegna lokunar eða takmörkunar á þjónustu hjá viðkomandi heilsugæslu er viðkomandi beðinn að senda staðfestingu þess efnis á sigling@samgongustofa.is. Ef um er að ræða endurnýjun á atvinnuskírteini skal tekið fram skipaskrárnúmer og hvaða stöðu viðkomandi gegnir.

STCW atvinnuskírteini á kaupskip og farþegaskip

Á meðan Covid-19 faraldur stendur yfir getur sjófarendum reynst ómögulegt uppfylla kröfur STCW-samþykktarinnar til að fá endurnýjað atvinnuskírteini sitt á kaupskip og farþegaskip. Í ljósi þess veitir Samgöngustofa almenna framlengingu á gildistíma skírteina farmanna til þriggja mánaða, en þó ekki lengur en til 1. september 2020. Þetta gildir um réttindaskírteini, hæfniskírteini sem og áritanir á erlendi skírteini. Ekki er þörf á sérstakri umsókn v. framlengingar. Sjómenn sem starfa á íslenskum skipum og þurfa að lögskrá sig geta sent póst á sigling@samgongustofa.is svo hægt sé að skrá framlenginu í lögskráningakerfi. 

STCW heilbrigðisvottorð farmanna

Á meðan Covid-19 faraldur stendur yfir getur sjófarendum reynst ómögulegt að fá endurnýjað heilbrigðisvottorð í samræmi við kröfur STCW-samþykktarinnar hjá viðurkenndum sjómannalæknum. Í ljósi þess veitir Samgöngustofa almenna framlengingu á gildistíma heilbrigðisvottorða farmanna sem renna út á meðan faraldrinum stendur og eru gefin út af sjómannalæknum viðurkenndum af Samgöngustofu. Gildistími vottorða er framlengdur um 3 mánuði, en þó ekki lengur en til 1. september 2020.