Einfölduð og uppfærð skipalög taka gildi

1.7.2021

Einfölduð og uppfærð skipalög nr. 66/2021 voru samþykkt á Alþingi þann 31. maí síðastliðinn og taka gildi í dag 1. júlí. Með lögunum er kominn heildstæður lagabálkur sem inniheldur allar helstu reglur er eiga við um skip.

Meðal helstu nýmæla eru:

  • Lagaumhverfið er einfaldað. Við gildistöku nýju laganna falla fern lög niður og eru þau felld inn í nýju lögin.
  • Með lögunum eru tiltekin ákvæði felld brott úr lagatexta og verða þau færð í reglugerðir. Ýmis ákvæði laganna voru einnig uppfærð og einfölduð þannig að meginreglur laga eru skýrar en nánari útfærsla kynnt með reglugerðum.
  • Skráningar, skírteini, aðgengi að gögnum Samgöngustofu og aðrir snertifletir við stofnunina geta samkvæmt lögunum almennt verið rafrænir þegar tækni leyfir.
  • Samgöngustofa gefur ekki lengur út leyfi fyrir innflutningi skipa heldur nú á einungis að upplýsa Samgöngustofu um innflutning. Eftir sem áður verður að skoða skip áður en það fer á skrá.
  • Í lögunum fær Samgöngustofa nýjar heimildir til að leggja á stjórnvaldssektir vegna tiltekinna brota gegn ákvæðum frumvarpsins.
  • Almennt er stjórnsýsla einfölduð og úrelt ákvæði sem þung voru í framkvæmd felld á brott.

43.jpg-Tekid-ur-moppu-Snarfari-sigling-um-sundinb

Markmið laganna er að tryggja öryggi íslenskra skipa, áhafna þeirra og farþega, efla varnir gegn mengun frá skipum og tryggja skilvirka skráningu, merkingu, mælingu og eftirlit með skipum. Þá er þeim ætlað að veita stjórnvöldum nægilegar heimildir til að innleiða þær kröfur sem leiða af skuldbindingum samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum Íslands á sviði sjóréttar er lúta að skipum.

Einn megintilgangurinn með nýju lögunum er að einfalda lagaumhverfi skipa og koma ákvæðum þeirra í ein lög. Þau sameina efni fjögurra eldri laga sem komin voru til ára sinna en þau eru: Lög um einkenning fiskiskipa, nr. 31/1925, lög um skráningu skipa, nr. 115/1985, lög um skipamælingar, nr. 146/2002 og lög um eftirlit með skipum, nr. 47/2003. Þá eru felld brott ýmis sértæk lög sem ekki er nauðsynlegt að séu í lagasafni. Í lögunum eru einnig gerðar ýmsar breytingar sem taka mið af rafræna stjórnsýslu sem Samgöngustofa sinnir.

Með lögunum voru tiltekin ákvæði felld brott úr lagatexta og verða þau færð í reglugerðir. Ýmis ákvæði laganna voru einnig uppfærð og einfölduð þannig að meginreglur laga væru skýrar en nánari útfærsla kynnt með reglugerðum. Er þar einkum átt við upptalningu á skilyrðum og upplýsingum sem ber að veita við umsóknir. Á grundvelli eldri laga eru settar fjölmargar reglugerðir sem útfæra nánar kröfur sem gerðar eru um skip.

Gildistaka laganna í dag felur ekki í sér marktæka breytingu á framkvæmd fyrir hagaðila en á næstu misserum verður unnið að því að uppfæra regluverkið í heild og meginreglur laganna útfærðar í reglugerðum í samráði við Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Breytingar verða kynntar sérstaklega áður en þær koma til framkvæmda.

Sjá einnig: 

Frétt samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins  
Ný Skipalög