Heildarúttekt Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar
Í þessari viku hefur staðið yfir heildarúttekt Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) á siglingamálum á Íslandi m.t.t. framkvæmdar Íslands á sex alþjóðasamþykktum IMO sem við erum aðilar að. Þetta eru samþykktirnar, SOLAS um öryggi mannslífa á sjó og siglingaöryggi, STCW um menntun, þjálfun og skírteini farmanna, Loadlines um hleðslumerki skipa, Tonnage um tonnamælingar skipa, COLREG um siglingareglur og MARPO um varnir gegn mengun af völdum skipa. Samgöngustofa er tengiliður við Alþjóðasiglingamálastofnunina í úttektinni og sér um allan undirbúning, utanumhald og eftirfylgd.
IMO hefur gert áætlun um slíkar úttektir á öllum aðildarríkjum stofnunarinnar og fyrstu úttektirnar hófust í ársbyrjun 2017. Tilgangur þeirra er að auka siglingaöryggi og efla varnir gegn mengun af völdum skipa.
Í úttektinni var m.a. farið yfir lögfestingu Íslands á ákvæðum þessara samþykkta og hvernig við höfum hrint þeim í framkvæmd. Úttektin beindist að öllum þeim stofnunum innanlands sem hafa með siglingamál að gera á einhvern hátt, t.d. Samgöngustofu, Landhelgisgæslunni, Vaktstöð siglinga, Sjómælingum, Vegagerðinni, Póst- og fjarskiptastofnun, Veðurstofu Íslands, Umhverfisstofnun, hafnaryfirvöldum og skipafélögum. Einnig beindist úttektin að þeim ráðuneytum sem fara með ofangreinda málaflokka. Farið verður yfir niðurstöðu úttektarinnar og gerð áætlun um nauðsynlegar úrbætur eins og þurfa þykir.