Metþátttaka í málþingi

2.12.2020

Í síðustu viku fór fram fjórði ársfundur Arctic Shipping Best Practice Information Forum (ASBIF)(pame.is/projects/arctic-marine-shipping/the-arctic-shipping-best-practices-information-forum/forum-meetings/fourth-meeting-of-the-forum) Norðurskautsráðsins , haldinn á fjarfundarformi vegna heimsfaraldursins. Metþátttaka var á fundinum. Hann sóttu 140 fulltrúar frá u.þ.b. 80 aðilum víðsvegar að úr heiminum. Markmið málþingsins var að styðja við árangursríka framkvæmd Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar IMO á Alþjóðareglum um skip sem starfa á heimskautasvæðum (Pólkóðanum). Því er náð með því að safna og birta opinberar upplýsingar á sérstakri vefsíðu um öll þau sem taka þátt í öruggum og umhverfisvænum norðurslóðasiglingum, þar á meðal útgerðir og rekstraraðila, eftirlitsaðila, flokkunarfélög, sjóvátryggjendur, frumbyggja og heimskautabyggðalög.

Þema fundarins var: Pólkóðinn: „Stefna sett í átt til framfara“ og snerist um aðgerðir til að efla enn frekar samræmda túlkun á Pólkóðanum. Áhersla var lögð á frumkvæði um aðferðir til að efla vörur og þjónustu á sviði veðurfræði, haffræði og sjómælinga sem styðja við öruggar og umhverfisvænar siglingar á norðurslóðum. Einnig þjálfunarátak til að treysta mikilvægi mannlega þáttarins í heimskautasiglingum. 

Sverrir Konráðsson, fagstjóri í siglingamálum hjá Samgöngustofu, er formaður verkefnisins en Arctic Shipping Best Practice Information Forum var stofnað árið 2017 af hálfu átta norðurskautsríkja (Kanada, Danmörku, Finnlands, Íslands, Noregs, Rússlands, Svíþjóðar og Bandaríkjanna) til að stuðla að vitundarvakningu og að skilvirkri framkvæmd Pólkóðareglnanna. Einnig er leitað í smiðju ríkja á suðurhveli nálægt Suðurskautslandinu með þátttöku frá því heimskautssvæði.

Hér má finna greinargerð um fundinn.
Hér má sjá nánari upplýsingar um efni fundarins, þátttakendur og kynningar (pame.is/projects/arctic-marine-shipping/the-arctic-shipping-best-practices-information-forum/forum-meetings/fourth-meeting-of-the-forum).