Að sigla er nauðsyn

4.11.2013

Höfundurinn, Guðjón Ármann Eyjólfsson, afhendir Hermanni Guðjónssyni forstjóra Samgöngustofu eintak af Siglingafræði.

Út er komin fræðslubókin Siglingafræði eftir Guðjón Ármann Eyjólfsson fv. skólameistara Stýrimannaskóla Íslands. Í bókinni er fjallað um grundvallaratriði siglingafræðinnar, sjókort, seguláttavita, gýróáttavita og rafræna áttavita. Auk þess er fjallað um jarðsegulmagn og misvísun, skipssegulmagn og segulskekkju, sjávarföll og straumrastir og orsakir þeirra. Í fyrsta skipti er í íslenskri kennslubók í siglingafræði fjallað um sívirka læsta staðsetningu (Dynamic Positioning-DP).

 

Áhersla er lögð á skýringamyndir og kynningu á haffræði og hafinu umhverfis Ísland,  Norður-Íshafinu og nálægum hafsvæðum. Stutt kynning er á heimshöfunum, stærstu skipaskurðum heims og siglingaleiðum, þar með talin kynning á Norðvestur- og Norðausturleiðinni frá Evrópu til Austurlanda fjær.

 

Einkunnarorð bókarinnar eru: „Að sigla er nauðsyn“. Er hún ætluð til kennslu í skipstjórnarnámi og sem handbók fyrir starfandi skipstjórnarmenn, einnig öllum öðrum til fróðleiks og skemmtunar.

 

Útgefandi bókarinnar Siglingafræði er Siglingastofnun Íslands. Ritstjóri hennar er Helgi Jóhannesson en teikningar í bókinni eru eftir Jóhann Jónsson (Jóa listó). Bókin er 480 bls. í vönduðu umbroti og hægt er að nálgast hana hjá Samgöngustofu, Vesturvör 2 í Kópavogi.