Útgáfa íslenskra sjóferðabóka hafin

Samgöngustofa hefur hafið útgáfu nýrra sjóferðabóka til íslenskra sjómanna.
Sjóferðabækur gegna hlutverki skilríkis ásamt því að vera staðfesting á að viðkomandi sé sjómaður og með færslu í sjóferðabækur geta sjómenn haldið utanum siglingatíma sinn með áritun skipstjóra í sjóferðabókina hverju sinni. Um sjóferðabækur er fjallað í 6. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985. Skilyrði þess að fá útgefna sjóferðabók eru eftirfarandi:
- að umsækjandi sé með íslenskt ríkisfang
- að umsækjandi sé handhafi alþjóðlegs atvinnuréttindaskírteinis til skipstjórnar eða vélstjórnar sem sé í gildi.
Umsóknir um útgáfu sjóferðabókar má fylla út á skrifstofu Samgöngustofu í Vesturvör 2 í Kópavogi. Á heimasíðu Samgöngustofu er hægt að senda rafræna umsókn um útgáfu sjóferðabókar.
Umsóknum skulu fylgja tvær nýlegar passamyndir. Sé umsækjandi ekki handhafi alþjóðlegs atvinnuréttindaskírteinis eða slíkt skírteini fallið úr gildi þarf hann að leggja fram staðfestingu útgerðarfélags sem hann starfar hjá þess efnis að hann sé starfandi hjá félaginu og starfi á skipum sem félagið annast rekstur á, t.d. með því að leggja fram staðfestan ráðningarsamning eða yfirlýsingu þar að lútandi sem er ekki eldri en 30 daga.
Nauðsynlegt er að umsækjandi sanni á sér deili og undirriti sjóferðabókina á starfsstöð Samgöngustofu í Kópavogi. Gjald fyrir útgáfu sjóferðabókar er kr. 16.500.
Eldri fréttir:
24. maí 2013: Nýjar sjóferðabækur væntanlegar
11. janúar 2013: Útgáfa sjóferðabóka undirbúin
19. september 2012: Fyrirspurn á Alþingi