Um farþegafjölda í RIB bátum

29.7.2013

Merki Samgöngustofu

Að beiðni innanríkisráðuneytisins hefur Samgöngustofa yfirfarið reglur er varða leyfilegan farþegafjölda RIB báta og jafnframt gert athugun á reglum er gilda á öðrum Norðurlöndum. Komið hefur í ljós að þar, eins og hér á landi, takmarkast leyfilegur hámarksfjöldi í þessum bátum við 12 farþega. Þessar reglur snúast fyrst og síðast um öryggi mannslífa á hafi.

RIB bátar eru smíðaðir sem skemmtibátar en ekki vinnubátar, en hugtakið vinnubátar í svokölluðum Norðurlandareglum er samheiti á bátum sem notaðir eru í atvinnuskyni. Talsverður munur er á þeim kröfum sem gerðar eru annarsvegar til skemmtibáta og hinsvegar vinnubáta, aðallega er varðar efnisþykktum bols og styrkingum, en einnig hvað varðar eldvarnir og vélbúnað. Skemmtibátar sem notaðir eru í atvinnuskyni hafa leyfi til að flytja allt að 12 farþega hér á landi svo og á öðrum Norðurlöndum. Skip sem flytja fleiri en 12 farþegar þurfa að lúta öðrum og strangari öryggiskröfum en skemmtibátar.

Þetta viðmið um 12 farþega á sér rætur í alþjóðlegum reglum frá 1948 og var m.a. sett í íslenska reglugerð nr. 11/1953 um eftirlit með skipum og öryggi þeirra. Rekstraraðilum RIB báta hér á landi hefur frá upphafi verið gerð grein fyrir þessum viðmiðunum og hefðu því mátt vita að ekki fengist leyfi fyrir fleiri en 12 farþegum nema bátarnir uppfylltu öryggiskröfur Norðurlandanna, jafnvel þó framleiðandi bátanna hafi sett í þá 24 sæti. Farþegar íslenskra rekstraraðila eiga að geta treyst því að íslensk stjórnvöld geri ekki lakari kröfur um öryggi þeirra er gerðar eru í nágrannalöndunum. Samgöngustofa telur engar forsendur vera til þess að heimila að RIB bátar sem smíðaðir eru samkvæmt stöðlum um skemmtibáta flytji fleiri en 12 farþega.

Að gefnu tilefni er jafnframt rétt að fram komi að aðstoð við björgunarstörf á sjó er ekki valkvæð, heldur skylda sjófarenda eins og fram kemur í 1. mgr. 166. gr. siglingalaga nr. 34 frá 1985.

Hér má sjá svar Samgöngustofu til Innanríkisráðuneytisins um endurskoðun laga er lúta að rekstri RIB báta frá 25.þ.m.