Samstarf við norrænar systurstofnanir

24.6.2013

Mynd af húsnæði Siglingarstofnunar í Kópavogi

Siglingastofnun Íslands hefur í gegnum árin átt gott samstarf við systurstofnanir sínar á Norðurlöndunum. Siglingamálastjórar Norðurlandanna hafa um langan tíma hist árlega og borið saman bækur sínar, starfsmenn norrænu stofnana hafa átt gott samstarf á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnunar, Evrópusambandsins og Siglingaöryggisstofnunar Evrópu. Þá eru starfandi samráðshópar í einstökum málaflokkun þar sem einstakir starfmenn geta haft samband við kollega sína á Norðurlöndunum sem starfa við sambærileg mál innan stofnananna. Starfsmenn Siglingastofnunar Íslands hafa farið til skemmri dvalar til starfa og kynningar hjá systurstofnunum á Norðurlöndum til að kynnast hvernig málefni siglinga eru meðhöndluð þar. Gott samstarf við samherja í nágrannalöndum er ein forsenda framfara í siglingamálum sem og öðrum málum.

Í aprílmánuði sóttu 4 starfsmenn Siglingastofnunar Íslands norsku siglingastofnunina heim, 2 frá stjórnsýslusviði og 2 frá skipaeftirlitssviði. Í heimsókninni var farið yfir mörg sameiginleg mál, t.d. útgáfu sjóferðabóka og alþjóðlegra atvinnuskírteina sjómanna, úttekt EB á menntun og þjálfun sjómanna, fánaríkisskyldur, væntanlega úttekt Alþjóðasiglingamálastofnunar, alþjóðasamninga um öryggi og hollustuhætti sjómanna (MLC og WFC) og um smíði og búnað fiskiskipa, málefni farþegaskipa og RIB báta, Norðurlandareglur, bátaleigur, skemmtibáta, eftirlit með skipsbúnaði og siglingar við Grænland og Jan Mayen. 

Á bls. 44-45 má sjá umfjöllun NAVIGARE, blaðs norsku siglingastofnunarinnar eftir heimsóknina.