Síðasti fundur Siglingaráðs

Á föstudaginn var haldinn síðasti fundur Siglingaráðs sem hefur haft það hlutverk að vera ráðherra til ráðuneytis í málum um siglinga- og vitamál. Með nýjum lögum um samgöngustofnanir sem taka gildi 1. júlí nk. verða til Samgöngustofa, stjórnsýslustofnun samgöngumála og Vegagerðin, framkvæmdastofnun samgöngumála. Samhliða verður Siglingaráð lagt niður en ráðherra getur sett á stofn fagráð með fulltrúum stofnunarinnar, hagsmunaaðila og annarra aðila í þeim tilgangi að vera vettvangur samráðs og upplýsingaskipta á fagsviðum stofnananna.
Á þessum síðasta fundi siglingaráðs var m.a. fjallað um nýjar samgöngustofnanir, sjóferðabækur þær sem væntanlegar eru innan skamms og úttektarskýrslu Siglingaöryggisstofnunar Evrópu (EMSA) á menntun og þjálfun sjómanna og útgáfu alþjóðlegra atvinnuskírteina.
Einnig lagði fráfarandi formaður Siglingaráðs, Björn Valur Gíslason fram bókun sem samþykkt var af fundarmönnum.
Siglingaráð eftir síðasta fundinn.