Nýjar sjóferðabækur væntanlegar

24.5.2013

Sjóferðabækur eru nokkurs konar skilríki og vegabréf sjómannsins.

Nýjar sjóferðabækur eru væntanlegar í lok júní og geta þá íslenskir sjómenn sem starfa á erlendum skipum fengið þær útgefnar hjá Siglingastofnun Íslands. Siglingastofnun Íslands hefur gert samning við prentsmiðju í Litháen um prentun sjóferðabókanna, en aðeins fáar prentsmiðjur í Evrópu uppfylla öryggiskröfur um prentun slíkra bóka. Haft var samráð við Siglingastofnun í Noregi við undirbúninginn, en þessi prentsmiðja í Litháen prentar einnig norskrar sjóferðabækur og verður útlit þeirra sambærilegt.

 

Sjóferðabækur eru nokkurs konar skilríki og vegabréf sjómannsins og með færslu í sjóferðabækur geta sjómenn staðfest siglingatíma sinn með áritun skipstjóra hverju sinni. Um sjóferðabækur er fjallað í 6. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985.

 

Ísland er aðili að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 108 frá árinu 1958 sem fjallar um persónuskírteini sjómanna. Tilgangur þeirra skírteina er ekki aðeins að halda utan um siglingatíma sjómannsins heldur einnig að vera skilríki til sönnunar þess að hann sé starfandi sjómaður og njóti tiltekinna réttinda sem slíkur, t.d. að því er varðar landvistarleyfi þegar skip, sem hann starfar á, er í erlendri höfn.

 

Eldri fréttir:

11. janúar 2013: Útgáfa sjóferðabóka undirbúin

Fyrirspurn á Alþingi