Öruggar siglingar árið um kring

Á borgarafundi í gær í Vestmannaeyjum um samgöngumál var rætt um Landeyjahöfn og þær úrbætur sem gera þarf til að koma á öruggum siglingum árið um kring. Komið hefur fram að meira hefur þurft að dýpka við höfnina en upphaflegar áætlanir fyrir tilkomu hafnarinnar gerðu ráð fyrir. Það skýrist að m.a af hlaupi í Markarfljóti og af djúpristu Herjólfs, en sem kunnugt er fólst verkefnið byggingu hafnar fyrir nýja ferju, en smíði hennar var frestað vegna bankahrunsins haustið 2008. Frá því ákveðið var að nota Herjólf um sinn var ljóst að sú ferja myndi takmarka nýtingu hafnarinnar, miðað við ferju sem hönnuð er sérstaklega miðað við aðstæður.
Landeyjahöfn hefur þegar sannað gildi sitt sem stórkostleg samgöngubót. Farþegafjöldi og áhrif á samfélagið í Vestmannaeyjum hefur verið framar björtustu vonum, þótt náttúruöflin hafi vissulega sýnt mátt sinn og átt þátt í að höfnin nýtist ekki allt árið eins kostur væri.
Undanfarið hefur Siglingastofnun leitast við að meta þær úrbætur sem gera þarf í höfninni. Jafnframt hefur verið unnið á vegum innanríkisráðuneytisins og Vegagerðarinnar að undirbúningi að smíði nýrrar ferju. Reiknað er með að skýrt verði frá ákvörðunum einkum sem varða skipið á fundi í Vestmannaeyjum á þriðjudag í næstu viku.
Sameiginlegt markmið íbúa Vestmannaeyja og stofnana samgöngumála er heilsárshöfn með öruggum siglingum milli lands og Eyja um leið og ný sérhönnuð ferja verður tekin í notkun. Fram að því muni takast að nýta Herjólf til öruggra siglinga á þessari leið stærstan hluta ársins. Vert er að taka fram að Herjólfur hefur reynst gott skip sem lengi hefur gagnast Eyjamönnum vel á þeirri leið sem honum var ætlað að sigla. Upprifjun á ummælum sem sett voru fram um Herjólf fyrir tveimur áratugum sem einhverjir hafa mögulega skilið á annan hátt, voru aðeins til þess ætluð að undirstrika að tíminn hafi sannað gagnsemi Herjólfs og svo mun vonandi einnig verða með Landeyjahöfn.
Á myndinni má vel sjá muninn á því sem dýpka þurfti fyrir Herjólf í lok febrúar miðað við það sem hefði þurft fyrir nýja ferju. Rauði liturinn sýnir svæðið sem dýpka þarf, sú vinstri fyrir Herjólf en sú hægri vegna grunnristari ferju.