Samgöngustofa og Vegagerðin taka til starfa 1. júlí 2013

15.4.2013

Alþingi.

Á síðustu dögum Alþingis í vor voru samþykkt lög nr. 59/2013 um breytingar á ýmsum lögum vegna nýrra samgöngustofnana. Með lögunum var breytt ákvæðum laga nr. 119/2012 um Farsýsluna, stjórnsýslustofnun samgöngumála og laga nr. 120/2012 um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála.

Með lögum nr. 59/2013 er ákvæðum ýmissa sérlaga breytt og kveðið á um hvor stofnunin eigi að sinna þeim lögbundnu verkefnum sem ákveðin er í þessum sérlögum. Jafnframt var heiti stjórnsýslustofnunarinnar breytt, þ.e. verður Samgöngustofa í stað Farsýslan. Auk þess var kveðið á um að ráðherra geti stofnað fagráð á starfssviði Samgöngustofu og Vegagerðarinnar, sem kemur í stað hafnaráðs, siglingaráðs og flugráðs.

Með stofnun Samgöngustofu og hinnar nýju Vegagerðar verða til tvær nýjar stofnanir á grunni núverandi samgöngustofnana, þ.e. Siglingastofnunar Íslands, Flugmálastjórnar Íslands (http://www.caa.is/Forsida/), Umferðarstofu (http://www.umferdarstofa.is/) og Vegagerðarinnar.

Samgöngustofa annast stjórnsýslu og eftirlit í samgöngum og þangað flytjast verkefni Umferðarstofu og Flugmálastjórnar auk stjórnsýslu- og eftirlitsverkefna Siglingastofnunar Íslands og Vegagerðarinnar.

Hin nýja Vegagerð annast framkvæmdir og rekstur í samgöngum og þangað flytjast  framkvæmda- og rekstrarverkefni Vegagerðarinnar og Siglingastofnunar Íslands, þ.e. vegir, hafnir og vitar. Isavia ohf. annast áfram þessi verkefni í fluginu.

Eldri fréttir:

20. nóvember 2012: Lög um Farsýsluna og Vegagerðina samþykkt

25. janúar 2013: Forstjórar undirbúa starfsemi Farsýslu og Vegagerðar í samvinnu við stýrihóp