Dýpi í Landeyjahöfn

19.3.2013

Dýpkun í Landeyjahöfn.

Undanfarið hafa staðið yfir öflugar dýpkunarframkvæmdir í Landeyjahöfn þar sem allt að þrjú dæluskip frá Björgun ehf. hafa verið að störfum í einu. Aðstæður hafa í aðalatriðum verið með ágætum og góður gangur í framkvæmdum.

Mælingar í höfninni í gær sýndu að nægjanlegt dýpi er nú til siglinga Herjólfs. Svipað magn sands þarf að fjarlægja nú og í fyrra. Fram til morgundagsins verður áfram unnið á tveimur skipum að dýpkun. Næstu vikurnar er ráðgert að dýpkunarskipið Dísa verði að störfum eftir því sem aðstæður leyfa, en þó verður líklega gert hlé yfir páskahelgina. Eftir að fullnaðardýpi verður náð og fram á haust verður dýpkunarskip áfram haft tiltækt.