Íslenskir gúmmíbjörgunarbátar og Norðurslóðasiglingar

19.3.2013

Íslenski gúmmíbjörgunarbáturinn á fundi IMO sem stendur nú yfir í London.

Eftir að uppblásnir gúmmíbjörgunarbátar komu fram sem björgunartæki til nota á skipum hefur Alþjóðasiglingamálastofnunin (IMO) sett reglur og staðla um þau skilyrði sem slíkir bátar skulu fullnægja og um prófanir á bátum með þeim markmiðum.

Í fjölda sjóslysa sem urðu á Íslandsmiðum fram til ársins 1980, þar sem reyndi á notkun uppblásinna gúmmíbjörgunarbáta, komu í ljós nokkrir annmarkar á hönnun bátanna og búnaði þeirra. Árið 1980 stóð Siglingamálastofnun ríkisins fyrir prófunum á nýjum og breyttum gerðum gúmmíbjörgunarbáta. Hafði Hjálmar Bárðarson, þáverandi siglingamálastjóri veg og vanda af þeim prófunum. Niðurstöðurnar gáfu til kynna að hin nýja hönnun hentaði mun betur erfiðum aðstæðum sem gera má ráð fyrir í Norður-Atlantshafi að vetrarlagi. Breytingarnar á hönnun gúmmíbjörgunarbáta voru þessar:
a) inngangsop gert hringlaga sökum þess að í eldri hönnun hafði þak báta rifnað út frá hornum eða þar sem álag á þakið var sérstaklega mikið,
b) þak og botn gúmmíbáts gert tvöfalt með möguleika á því að dæla lofti á milli laga og auka þar með hitaeinangrun,
c) sjókjölfestupokar stækkaðir til að gera gúmmíbjörgunarbátinn stöðugri í aftakaveðri,
d) stækka rekakkeri bátsins til muna til að draga úr rekhraða bátsins og til að gera hann stöðugri.

Þessu til viðbótar var gerð krafa um að gúmmíbjörgunarbátar væru búnir neyðarsendi og einangrunarpoka fyrir þann fjölda sem björgunarbáturinn er gerður fyrir. Frá árinu 1980 hafa íslenskar reglur kveðið á um að íslensk fiskiskip skulu búin gúmmíbjörgunarbátum af þessari sér-íslensku gerð.

Undanfarin 2-3 ár hefur verið unnið að því að semja reglur sem skulu gilda um skip í förum á heimskautasvæðum. Á fundi hjá Alþjóðasiglingamálastofnuninni sem hófst í gær 18. mars í London er komið að því að fjalla um björgunarför skipa sem eru í förum á heimskautasvæðum, þar meðtalið uppblásinna gúmmíbjörgunarbáta. Íslensk stjórnvöld hafa lagt fram tvö skjöl til umfjöllunar á þessum fundi. Annað skjalið gerir grein fyrir þeim sérkröfum sem gerðar eru til gúmmíbjörgunarbáta fiskiskipa samkvæmt íslenskum lögum. Hitt skjalið bendir á nauðsyn þess að aðalbjörgunarför skipa séu yfirbyggðir lífbátar sem veita áhöfn og farþegum fullnægjandi vörn gagnvart kulda og vosbúð. Í því skjali er jafnframt bent á þá staðreynd að hefðbundnir gúmmíbjörgunarbátar veiti ekki nægilega vörn og lagt til að þegar skip er í förum á heimskautasvæðum og gera má ráð fyrir að hitastig fari undir 0°C, sé nauðsynlegt að gúmmíbjörgunarbátar viðkomandi skipa séu af þeirri gerð sem íslenskar reglur mæla fyrir um og taki þannig mið af þeirri góðu reynslu sem við höfum af hinum íslensku sérkröfum.

Til að kynna betur þann uppblásna gúmmíbjörgunarbát sem íslenskar reglur mæla fyrir um hefur Siglingastofnun Íslands sett upp slíkan bát til kynningar á fundinum í London og gefa þannig fundargestum möguleika á því að kynna sér þá sérstöku eiginleika sem hinir íslensku bátar eru gæddir.