Ráðstefna um siglingavernd

Nú í mars var haldin í Brussel ráðstefna um siglingavernd á vegum Evrópusambandsins sem bar heitið National Inspectors Day 2013. Fundinn sátu fulltrúar aðildarríkja Evrópusambandsins, EFTA ríkjanna Noregs og Íslands auk starfsmanna frá Evrópusambandinu og Eftirlitsstofnun EFTA. Fulltrúar Íslands á ráðstefnunni voru Sigurður Áss Grétarsson forstöðumaður hafnasviðs og Stefán Alfreðsson deildarstjóri siglingaverndar.
Á ráðstefnunni fluttu fulltrúar Bretlands, Frakklands, Þýskalands, Belgíu, Ítalíu, Kýpur, Danmerkur og Noregs auk fulltrúa Evrópusambandsins erindi.
Helstu viðfangsefni ráðstefnunnar voru siglingavernd í tengslum við Ólympíuleikana í London 2012, gerð áhættumats fyrir hafnir og hafnaraðstöður, framkvæmd verndarráðstafana, nýútkomna handbók Evrópusambandsins um þjálfun og æfingar í siglingavernd, þjálfun fulltrúa stjórnvalds, gæðakerfi í siglingavernd, eftirlit með viðurkenndum verndaraðilum og úttektir Evrópusambandsins á siglingavernd í aðildarríkjum þess.