Herjólfur óhentugt skip

12.12.2012

Herjólfur hentar illa til siglinga í Landeyjahöfn.

Vegna óhapps Herjólfs í innsiglingu sigldi Baldur um tíma milli lands og Eyja. Er það í annað skipti frá opnun Landeyjahafnar, en í fyrrahaust leysti Baldur af um 5 vikna skeið á meðan Herjólfur var í slipp. Þá var enn mikill efnisburður vegna eldgossins í Eyjafjallajökli en þó þurfti aldrei að fella niður ferðir Baldurs vegna dýpis. Afleysingarnar hafa þvert á móti sýnt að með hentugra skipi ganga siglingar í Landeyjahöfn vel.

Nú í haust hefur ölduhæðin verið svipuð og í fyrra en meiri en árin 2009-10. Dýpið hefur þó verið nægjanlegt því sandburður hefur minnkað til muna. Þó má reikna með að fyrir Herjólf lokist höfin fljótlega en gæti miðað við reynslu verið opin fyrir Baldur jafnvel allt árið. Rétt er að halda því til haga að strax haustið 2008, þegar bankahrunið olli frestun á smíði ferju, var það mat Siglingastofnunar að með áframhaldandi notkun á Herjólfi yrði Landeyjahöfn ekki siglingafær allt árið. Afleysing Baldurs, sem er mun grunnristara skip en Herjólfur og þannig líkari þeirri ferju sem höfnin er gerð fyrir, sýnir að það mat var rétt. Herjólfur er ekki gott skip til siglinga í Landeyjahöfn enda var honum aldrei ætlað að sigla þangað. Hann ristir of mikið og er ekki nógu stefnufastur. Brýnt er að greina hvernig stendur á því að innfjarðarferja sem þarf undanþágu til að sigla milli lands og Eyja skuli eiga auðveldara með siglingar í Landeyjahöfn en Herjólfur. Vegna þess að hve Herjólfur er kvikur gagnvart öldu og straumi er mikilvægt að umsjónaraðili Herjólfs geri úttekt á stjórnhæfni skipsins.

Jafnframt er nauðsynlegt er að koma straummælingum í horf við Landeyjahöfn. Hefðbundnar straummælingar hafa ekki gengið vel vegna mikils ölduróts en í undirbúningi er uppsetning á mælingum með radar í landi sem skilar jafnóðum meðalstraumum og stefnu á tilteknu svæði. Um er að ræða nýlega tækni sem ekki hefur verið notuð fyrr í Evrópu. Einnig er áríðandi er að eigendur og rekstraraðili Herjólfs komi straummæli sem er um borð í Herjólfi í lag því hann hefur ekki verið nothæfur. Sá mælir á að greina þann straum sem mætir skipinu á hverjum tíma.