Úttektarskýrsla Siglingaöryggisstofnunar Evrópu á vaktstöð siglinga

16.11.2012

Staða mála í vöktun og eftirliti með skipaumferð hér á landi er í góðu horfi.

Í maí sl. fór fram úttekt á vöktun og eftirliti með skipaumferð hér á landi, en hún fólst í ítarlegri skoðun á stjórnsýslu og rekstri vaktstöðvar siglinga og samanburði á tilskipun EES um vöktunar-, eftirlits- og upplýsingakerfi Evrópu fyrir umferð á sjó nr. 2002/59/EB við lög um vaktstöð siglinga nr. 41/2003 og reglugerð um sama efni nr. 672/2006. Íslensku reglurnar taka mið af ákvæðum tilskipunarinnar og endurspegla Evrópureglur.

Nú liggur fyrir íslensk þýðing úttektarskýrslunnar, en niðurstöður hennar eru mjög jákvæðar og sýna að staða mála á vöktun og eftirliti með skipaumferð hér á landi er í góðu horfi. Gerðar voru fáeinar athugasemdir sem krefjast smávægilegra breytinga.

Úttektir sem þessi hafa þegar verið gerðar í öllum ríkjum Evrópusambandsins og lauk með úttekt í Noregi í september 2012. Með aðild Íslands að samningum um Evrópska efnahagssvæðið ber Íslandi að taka upp í íslenska löggjöf gerðir ESB um siglingar. Siglingaöryggisstofnun Evrópu (EMSA) og Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) gera úttektir á því hvernig staðið er að innleiðingu, stjórnsýslu og framkvæmd þessara gerða í einstökum aðildarríkjum EES.

Áður hafa farið fram sambærilegar úttektir hér á landi á neyðarhöfnum (september 2005), siglingavernd (maí 2008, ágúst 2009, febrúar og sept. 2010 og sept. 2011), hafnarríkiseftirliti (júlí 2009) og aðstöðu í höfnum til að taka á móti úrgangi og farmleifum frá skipum (júlí 2010) og úttekt á menntun og þjálfun sjómanna og á útgáfu alþjóðlegra atvinnuskírteina  (september 2012). Jafnframt hefur bandaríska strandgæslan gert nokkrar úttektir á framkvæmd siglingaverndar hér á landi.