Siglingar á heimskautasvæðum

19.10.2012

Skip í hafís.

Polar Code er vinnuheiti á verkefni á vettvangi IMO (Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar) sem lýtur að því að semja reglur um skip í förum á heimskautasvæðum. Sem kunnugt er hefur hlýnun jarðar það í för með sér að áður ófær hafsvæði eru að verða aðgengilegri skipum og starfsemi sem hefur að markmiði að leita arðbærra auðlinda. Leiðbeiningar IMO um smíði og búnað skipa í förum á þessum slóðum hafa fram til þessa verið framlag stofnunarinnar til þess að tryggja betur en ella öryggi skipa í förum á þessum svæðum.

Núverandi reglur um öryggi skipa í alþjóðlegum siglingum hafa ekki tekið sérstaklega mið af siglingum á heimskautasvæðum og þeim sérstöku aðstæðum og ógnum við öryggi sjófarenda sem þar má vænta sem eru til dæmis:

• Lágt umhverfishitastig, jafnvel lægra umhverfishitastig en hönnunarstaðlar gera ráð fyrir.
• Hafís á siglingaleiðum eða siglingar þar sem skip þarf að "höggva sig" í gegn um lagnaðarís.
• Siglingar fjarri stöðum þar sem unnt er með skömmum fyrirvara að koma nauðstöddu skipi til aðstoðar eða annast um björgun þúsunda farþega.
• Siglingar á hafsvæðum þar sem sjókort eru ekki áreiðanleg eða sem eru að heita má ókortlögð.
• Aukin skekkja í siglingatækjum vegna nálægðar við segulskaut og þar sem staðarákvarðanir eru háðar meiri óvissu.
• Skortur á björgunar- og öryggisbúnaði til þess að beita við aðstæður þar sem yfirborð sjávar er þakið hafís.

Frá því að umfjöllun hófst um gerð bindandi reglna um skip sem eru í förum á heimskautsvæðum hefur tekist samstaða um þau atriði sem minnstur ágreiningur er um. Enn standa þó eftir ýmis erfið álitamál, til dæmis flokkun krafna til ísbrjóta, takmörkun siglinga um hafsvæði þar sem ómögulegt er að tryggja neyðaraðstoð með skjótum hætti, skort á björgunarförum til nota við skip umlukin hafís, miklar og snöggar sveiflur í veðurfari og umhverfismál. Það er ljóst að þegar upp er staðið verður nauðsynlegt að setja reglur sem munu takmarka heimildir skipa til að sigla á heimskautasvæðum en slíkar takmarkanir ganga í grundvallaratriðum gegn ákvæðum hafréttarsáttmála SÞ um fullt frelsi til siglinga.

Það að semja lögboðnar reglur um skip sem eru í förum á heimskautasvæðum krefst þess að um það efni sér fjallað með ítarlegum og faglegum hætti, sem óhjákvæmilega mun taka nokkurn tíma. Siglingastofnun Íslands hefur borið ábyrgð á því að fylgjast með alþjóðlegri umfjöllun um þessi mál og hefur jafnframt tekið þar virkan þátt.

Næsti fundur hjá IMO þar sem málefni Polar Code verða til umfjöllunar hefst 13. febrúar 2013.