Úttekt á menntun og þjálfun sjómanna og á útgáfu alþjóðlegra atvinnuskírteina

27.9.2012

Þátttakendur í úttekt á menntun og þjálfun sjómanna og á útgáfu alþjóðlegra atvinnuskírteina.

Nú er lokið úttekt fulltrúa  Siglingaöryggisstofnunar Evrópu (EMSA) á stjórnsýslu og framkvæmd Íslands á tilskipun Evrópusambandsins um lágmarksþjálfun sjómanna nr. 2008/106/EB. Tilskipunin er innleiðing á alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun og vaktstöður sjómanna (STCW). Ísland hefur fullgilt alþjóðasamþykktina og ber að innleiða ákvæði tilskipunarinnar vegna EES samningsins og hefur það verið gert með lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr.  76/2001 með síðari breytingum og reglugerð um sama efni nr. 416/2003 með síðari breytingum.

 

Í lok úttektarinnar voru meginniðurstöður hennar kynntar og kom fram að fyrirkomulag menntunar og þjálfunar sjómanna og skírteinisútgáfa hér á landi væri í meginatriðum gott, en þó eru tiltekin atriði sem bæta þarf úr. Skýrsla þar um verður send íslenskum stjórnvöldum innan tíðar og í framhaldi af henni þurfa þau að gera tilteknar úrbætur og verður það hlutverk Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) að fylgja úttektinni eftir.  

 

Fulltrúar Siglingaöryggisstofnunar Evrópu (EMSA) áttu fundi með fulltrúum innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og starfsgreinaráða, Siglingastofnunar Íslands, Tækniskólans, skóla atvinnulífsins og Slysavarnaskóla sjómanna og starfsgreinaráða.

 

Heimasíða mennta- og menningarmálaráðuneytis:

Viðamikil úttekt á námi sjómanna

 

Heimasíða Tækniskólans, skóla atvinnuslífins (Skipstjórnarskólinn og Véltækniskólinn):

Úttekt á menntun sjómanna á Íslandi  https://tskoli.is/skolar/veltaekniskolinn/frettir/nr/1927