Tilkynning til útgerðarmanna og eigenda skipa 300 BT og yfir

25.9.2012

Fáni ESB.

Með lögum nr. 46/2012 var gerð breyting á siglingalögum nr. 34/1985. Á eftir 171. gr. laganna bættist við ný grein, 171. gr. a, með fyrirsögninni 1a. Ábyrgð á tjóni þriðja aðila . Fyrsta málsgrein nýju greinarinnar hljóðar svo:

„Útgerðarmenn íslenskra skipa sem eru 300 brúttótonn og stærri og útgerðarmenn allra erlendra skipa af sömu stærð sem koma í íslenskar hafnir skulu tryggja skip sín tryggingu vegna tjóns sem þeir valda þriðja aðila með skipum sínum. Þetta tekur þó ekki til herskipa, aðstoðarskipa sjóherja eða annarra skipa í eigu eða rekstri EES-ríkis sem hið opinbera starfrækir ekki í ábataskyni. Útgerðarmaður telst sá sem er skráður eigandi skips eða sérhver annar einstaklingur eða lögaðili, svo sem leigutaki þurrleiguskipa, sem ber ábyrgð á rekstri skipsins.”

Lagabreytingin felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/20/EB frá 23. apríl 2009 um tryggingar skipaeigenda gegn sjóréttarkröfum eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 32/2010 sem birt var 10. júní 2010 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 30/2010.
Lagabreytingin tekur gildi 1. október 2012. Tilvist tryggingarinnar skv. ofannefndri 1. mgr. skal staðfest með einu eða fleiri skírteinum sem tryggingafélagið gefur út og skulu þau geymd um borð í skipinu.