Um siglingavernd

Markmið siglingaverndar er að tryggja vernd skipa, áhafna, farþega og farms í alþjóðasiglingum og hafna sem þjóna slíkum skipum. Í desember 2002 samþykkti Alþjóðasiglingamálastofnunin (IMO) kröfur um sérstakar ráðstafanir til að auka og efla siglingavernd og eru þær settar fram í alþjóðlegri samþykkt um öryggi mannslífa á hafinu (SOLAS) og í sérstökum kóða ( ISPS: http://www.imo.org/en/OurWork/Safety/Navigation/Documents/MaritimeSecurity(ByRequest).doc) sem framfylgt hefur verið frá 2004. Tilkoma siglingaverndar eins og hún er nú skilgreind, er umræða innan IMO í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september 2001, um með hvaða hætti koma mætti í veg fyrir að skip yrðu notuð til hryðjuverka. Í alþjóðlegu samþykktinni og ISPS kóðanum er að finna bæði almenn ákvæði um siglingavernd og nánari ákvæði um framkvæmd hennar en Evrópusambandið hefur síðan sett frekari reglur um siglingavernd.
Í kjölfarið var eftirlitskerfi með skipum – LRIT - komið á laggirnar en það ber kennsl á skip og veitir siglingayfirvöldum upplýsingar um ferðir þeirra. Siglingaverndin byggir einnig m.a. á starfi verndarfulltrúa hafna. Á Íslandi bera þeir ábyrgð á gerð áhættumats og verndaráætlun fyrir sína höfn og jafnframt því að aðrir starfsmenn hafnarinnar fari að reglum. Verndarráðstafanir eru gerðar fyrir aðstæður á hverjum stað og geta því verið mismunandi fyrir hverja höfn. Til að uppfylla kröfur ISPS-kóðans um kennslu, þjálfun og æfingar heldur Siglingastofnun námskeið með aðkomu Ríkislögreglustjóra og Tollstjóra fyrir verndarfulltrúa og hafnargæslumenn í höfnum. Siglingavernd á Íslandi er undir eftirliti Eftirlitsstofnunar EFTA sem gerir reglulega úttektir hér á landi. Bandaríska strandgæslan (US Coast Guard) hefur auk þess komið í heimsóknir reglulega til að kynna sér siglingavernd á Íslandi.