Ný reglugerð um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa
Með lögum nr. 166/2019 voru gerðar breytingar á lögum nr. 30/2007 um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa. Með lögunum var skilgreiningu á hugtakinu smáskip breytt þannig að þau teljast nú vera skip sem eru 15 metrar að skráningarlengd eða styttri í stað 12 metra áður. Þá var sett ákvæði til bráðabirgða um að skipstjórnar- og vélstjórnarmenn, sem hafa skírteini til að starfa á skipum sem eru styttri en 12 metrar að skráningarlengd, eigi rétt til 1. janúar 2021 á að fá útgefið skírteini til þess að gegna sömu störfum á skipum sem eru 15 metrar að skráningarlengd eða styttri að uppfylltum öðrum skilyrðum laga og kröfum um lágmarks-siglingatíma eins og nánar verði kveðið á um í reglugerð.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur nú gefið út nýja heildarreglugerð á grundvelli laganna, nr. 944/2020 og á næstu dögum verður lögskráningarkerfi sjómanna uppfært til samræmis við efni hennar. Í reglugerðinni er fjallað um skipstjórnar- og vélstjórnarnám, heilbrigðiskröfur, kröfur um siglingatíma, atvinnuskírteini, viðurkenningu erlendra skírteina, skemmtibátaskírteini, reglur um lágmarksmönnun skipa og uppfærslu skipstjórnarréttinda úr 12 metrum í 15 metra.
Helstu breytingar eru:
Uppfærsla skipstjórnarréttinda úr 12 metrum í 15 metra
- Fram til 1. janúar 2021 hefur sá sem er handhafi skírteinis til skipstjórnarstarfa á skipum sem eru styttri en 12 metrar að skráningarlengd í strandsiglingum rétt til að fá útgefið skírteini til skipstjórnarstarfa á skipum sem eru 15 metrar og styttri að skráningarlengd, enda hafi hann þegar umsókn er lögð fram verið lögskráður sem skipstjóri í amk. 12 mánuði, uppfylli að öðru leyti kröfur laga og reglugerða um aldur, menntun og heilbrigði, hafi lokið öryggisfræðslunámi smáskipa og viðurkenndu námskeiði í skyndihjálp. Lengra öryggisfræðslunámskeiðið (5 dagar) dekkar hvort tveggja, en þeir sem hafa aðeins lokið öryggisfræðslu smábáta (1 dagur) þurfa að sýna fram á að hafa lokið viðurkenndu námskeiði í skyndihjálp.
- Sá sem er handhafi skipstjórnarskírteinis (<12 metrar) og hefur verið lögskráður sem skipstjóri í a.m.k. 12 mánuði fyrir 1. janúar 2021, en ekki lagt fram umsókn til Samgöngustofu um aukin skipstjórnarréttindi fyrir 1. janúar 2021, heldur skipstjórnarréttindum sínum óbreyttum, þ.e. 12 metra skipstjórnarréttindi í strandsiglingum, en þarf að endurnýja skírteini sitt að gildistíma liðnum eða sækja viðbótarnám til aukinna skipstjórnarréttinda (<15 metrar).
- Sá sem er handhafi skipsstjórnarskírteinis (<12 metrar) og hefur ekki verið lögskráður sem skipstjóri í a.m.k. 12 mánuði fyrir 1. janúar 2021, heldur skipstjórnarréttindum (<12 metrar) sínum óbreyttum, en þarf að endurnýja skírteini sitt að gildistíma liðnum eða sækja viðbótarnám til aukinna skipstjórnarréttinda (<15 metrar).
- Sá sem hefur lokið smáskipanámi til 12 metra skipstjórnarréttinda fyrir 1. september 2020, en ekki náð tilskildum siglingatíma, getur fengið útgefið skipstjórnarskírteini (<12 metrar) þegar tilskildum siglingatíma er náð, en þó ekki lengur en til 31. desember 2022. Að öðrum kosti verður viðkomandi að sækja viðbótarnám til aukinna skipstjórnarréttinda (<15 metrar).
Gamla pungaprófið
Ekki verða lengur gefin út svokölluð 30 brúttórúmlesta skipstjórnarskírteini og helgast það einkum af því að skip eru ekki lengur mæld í brúttórúmlestum. Sá sem er lögmætur handhafi 30 brúttórúmlesta atvinnuskírteinis til skipstjórnar á rétt á að fá útgefið skírteini til að vera skipstjóri á skipi sem eru 15 metrar og styttra að skráningarlengd í strandsiglingum. Ef viðkomandi hefur starfað á skipum sem eru undir 30 brúttórúmlestum, en yfir 15 metrum að skráningarlengd, á hann rétt á að fá útgefið skírteini til þess að gegna sama starfi á því skipi og skipi sem eins háttar um. Lögskráningarkerfi sjómanna verður breytt þannig að handhafar þessara skírteina fást lögskráðir á fiskiskip og önnur skip sem eru <15 metrar og styttri að skráningarlengd. Ekki þarf að sækja um ný atvinnuskírteini vegna þessa, en áletrun nýrra skírteina verður breytt þegar þau koma til endurnýjunar hjá Samgöngustofu.
Smáskipavélavörður
Atvinnuskírteini smáskipavélavarða (<12 metrar og <750 kW.) á fiskiskip og önnur skip miðast nú við <15 metrar og <750 kW. Lögskráningarkerfi sjómanna verður breytt þannig að handhafar þessara skírteina fást lögskráðir á fiskiskip og önnur skip sem eru <15 metrar og <750 kW. Ekki þarf að sækja um ný atvinnuskírteini vegna þessa, en áletrun nýrra skírteina verður breytt þegar þau koma til endurnýjunar hjá Samgöngustofu. Við endurnýjun skírteinanna þarf umsækjandi að sýna fram á að hafa lokið öryggisfræðslunámi smáskipa hjá Slysavarnaskóla sjómanna eða öðrum viðurkenndum þjálfunaraðila og viðurkenndu námskeiði í skyndihjálp, sbr. 12. gr. reglugerðarinnar.
Sameining réttindaflokka
Með reglugerðinni er réttindaflokkurinn VVY sameinaður næsta réttindaflokki fyrir ofan, þannig að þeir sem eru handhafar vélstjórnarskírteinis til að gegna stöðu yfirvélstjóra á skipi með vélarafl 375 kW og minna (VVY) eiga rétt á að fá útgefið atvinnuskírteini til að vera yfirvélstjóri á skipi styttra en 24 metrar að skráningarlengd og með vélarafl 750 kW vélarafl og minna (VVY1), að öðrum skilyrðum uppfylltum. Þetta atriði varðar einkum einstaklinga sem luku 1. stigi vélstjórnar skv. eldra námskerfi. Áletrun nýrra skírteina þessara einstaklinga verður breytt þegar þau koma til endurnýjunar hjá Samgöngustofu.
Sjókvíavinnuskip
Ekki verða lengur gefin út sérstök atvinnuskírteini á sjókvíavinnuskip og falla þau undir sömu reglur og önnur skip. Þeir sem eru handhafar sérstakra skipstjórnar- og vélstjórnarréttinda á sjókvíavinnuskip eiga rétt á að fá útgefin sambærileg réttindi.
Smáskipanám
Eftir 1. september 2020 er aðeins boðið upp á smáskipanám til 15 metra skipstjórnarréttinda á grundvelli nýrrar námskrár og verða prófskírteini þess náms grundvöllur atvinnuskírteinis til skipstjórnar (<15 metrar) auk annarra krafna reglugerðarinnar. Sama gildir um nám til réttinda smáskipavélavarðar (<15 metrar og <750 kW.). Unnið er gerð nýrra námskráa fyrir smáskipanám og gera má ráð fyrir að það nám lengist enda viðmiðun réttinda orðin hærri.
Breyttar reglur um lágmarksmönnun
Helstu breytingar verða á lágmarksmönnun skipa sem eru á bilinu 12-15 metrar að skráningarlengd og með aðalvél 250-750 kW. Lágmarksmönnun þeirra verður nú:
- skipstjóri með skipstjórnarréttindi <15 metrar og smáskipavélavörður
- ekki er skylt að smáskipavélavörður sé um borð ef gerður hefur verið þjónustusamningur um viðhald vélbúnar og sá samningur staðfestur af Samgöngustofu.
- skipstjóri má gegna báðum stöðunum hafi hann réttindi í þær báðar og útivist skipsins er innan við 14 klst.
- Ef útivist skipsins er lengri en 14 klst. þarf að manna skipið þannig að fylgt sé ákvæðum sjómannalaga og reglugerðum settum skv. þeim um vinnu- og hvíldartíma sjómanna.
- Sams konar reglur gilda ef skip er <12 metrar, að öðru leyti en því að skipstjóri þarf að lágmarki að hafa skipstjórnarréttindi á skip <12 metrar.
Þjónustusamningar
Skv. eldri reglugerð var ekki skylt að smáskipavélavörður væri í áhöfn skips <12 metrar og 250-750 kW. ef gerður hafði verið þjónustusamningur við þjónustuaðila um viðhald vélbúnaðar skipsins og sá samningur er staðfestur af Samgöngustofu. Lög nr. 166/2019 kveða á um að miða skuli við skip <15 metra og 250-750 kW. í þessu efni. Í ljósi fenginnar reynslu og víðtækara gildissviðs ákvæðisins kveður reglugerðin á um að Samgöngustofu verði falið að setja nánari ákvæði um þjónustusamninga, svo sem um skilyrði þeirra, gildistíma og brottfall, t.d. ef skip er selt, þjónustuaðili hættir starfsemi eða flytur starfsemina annað en þjónustusamningur gerir ráð fyrir.
Breytingar á Lögskráningarkerfi sjómanna
Nú er unnið að endurbótum á Lögskráningarkerfi sjómanna þar sem tekið verður tillit til þeirra breytinga sem felast í ofannefndum atriðum og mun þeim endurbótum ljúka á næstu dögum.