Nýjar reglur um þjálfun farmanna í heimskautasiglingum
Á fundi undirnefndar Alþjóða siglingamálastofnunarinnar, IMO, um menntun og þjálfun (HTW) sem haldinn var nýlega í London voru samþykktar auknar kröfur um menntun, þjálfun og skírteini skipstjórnarmanna farskipa sem sigla á heimskautasvæðum. Er þetta í takt við þá skoðun siglingaþjóða heims að sökum aukinnar skipaumferðar á heimskautasvæðinu sé nauðsynlegt að efla siglingaöryggi og gera auknar kröfur um smíði, búnað, björgunartæki, fjarskiptabúnað og þjálfun áhafna skipanna.
Eru þessar reglur settar samkvæmt kröfum svokallaðs pólkóða (
Polar Code) um siglingar farþega- og flutningaskipa á hafsvæðum heimskautasvæðanna, sem öðlast gildi 1. janúar 2017. Reglurnar koma þó ekki til framkvæmdar fyrr en 1. janúar 2018 sem breytingar á V. kafla
STCW-samþykktarinnar.