Ráðstafanir varðandi skipsskírteini og skoðanir vegna COVID-19
(Uppfært 28.04.2020)
Hér að neðan má finna lista yfir ráðstafanir Samgöngustofu varðandi skipsskírteini og skoðanir í þeirri stöðu sem hefur skapast vegna COVID-19. Rétt er að taka fram að gildandi samkomubann nær ekki til skipa. Hvatt er til öflugra sóttvarnaráðstafana og að rekstraraðilar grípi til ýtrustu ráðstafana til að minnka möguleika á smiti. Lögð er áhersla á að útgerðir og skoðunaraðilar leggi mat á aðstæður með hliðsjón af þeim leiðbeiningum sem liggja fyrir áður er skipaskoðun er framkvæmd og forgangsraði í samræmi.
Ráðstafanir Samgöngustofu varðandi skipsskírteini og skoðanir á meðan COVID-19 faraldurinn stendur yfir:
1. Að beiðni eiganda / útgerðar er heimilt í samræmi við lög og reglugerðir, að fresta skipaskoðunum í 1 til 3 mánuði og framlengja viðkomandi skipsskírteini í samræmi við það (haffærisskírteini eða annað). Með hliðsjón af tilmælum alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, EFTA og framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins tengt COVID-19 faraldrinum hefur Samgöngustofa ákveðið vegna þeirra fordæmalausu aðstæðna, sem uppi eru, að heimila nýtingu framangreinds frests nema þegar um sérstakar ástæður er að ræða. Ef fallist er á að fresta skipaskoðunum og framlengja skipsskírteini skal það framlengt í mest 3 mánuði óháð því hvaða reglur gilda um skipið.
Gildistími framlengingar tekur þá mið af gildistíma þeirra skoðunar sem fyrst rennur úr gildi . Skip þar sem skoðanir runnu út fyrir 26.12.2019 geta ekki fengið frest á skipaskoðun eða framlengt skipsskírteini.
Umsókn um framlengingu skal gerð með rafrænni beiðni í gegnum heimasíðu Samgöngustofu „Umsókn um útgáfu haffærisskírteinis“ og skrá undir „Skilaboð“:
Beiðni um framlengingu haffærisskírteinis
Gjaldtaka er í samræmi við gildandi gjaldskrá Samgöngustofu.
2. Framangreindar framlengingar ná til allra skipsskírteina sem gefin eru út af Samgöngustofu eða viðurkenndu flokkunarfélagi. Framlenging skipsskírteina nær einnig til þeirra vottorða, sem gefin eru út af þjónustuaðilum við skipsbúnað, s.s. gúmmíbjörgunarbáta, björgunarbúninga, eldvarnar- og slökkvibúnað, fjarskiptabúnað.
Viðurkennd flokkunarfélög skulu tilkynna um framlengingu á þeim skírteinum sem þau gefa út fyrir hönd íslenskra stjórnvalda á tölvupóstfangið: ro@icetra.is .
3. Framlenging skipsskírteinis verður skráð í Skipaskrá. Heildarlisti skoðana verður sendur viðkomandi útgerð í tölvupósti, þar sem gildistími haffærisskírteinis kemur fram. Skipsskírteini verða ekki prentuð út og send í pósti.
Ekki þarf að árita frumrit skipsskírteinis um borð í þeim tilvikum þar sem gert er ráð fyrir áritun á skírteini til að framlengja (s.s. öryggisskírteini fiskiskips).
4. Útgerð ber eftir sem áður, að halda skipi og búnaði þess í því ástandi sem ákvæði gildandi laga og reglugerða krefjast og að tryggja að skipið sé haffært.
1 Dæmi: 12 metra fiskiskip.
Búnaðarskoðun rennur út 2. apríl 2020, en allar aðrar skoðanir renna út 5. maí 2020. Þá er mögulegt að framlengja haffærisskírteini um 3 mánuði miðað við búnaðarskoðun skipsins, sem er sú skoðun, sem fyrst rennur úr gildi. Gildistími haffærisskírteinis eftir framlengingu gæti þá orðið 2. júlí 2020.
www.covid.is/undirflokkar/hvad-thydir-samkomubann
www.landlaeknir.is/smit-og-sottvarnir/sykingavarnir-fyrir-almenning/
www.covid.is/flokkar/fordast-smit