Uppfærsla skipstjórnarréttinda

úr <12 metra í <15 metra

19.10.2020

Nú hafa tekið gildi breytingar á lögum um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa. Með nýju lögunum var skilgreiningu á hugtakinu smáskip breytt þannig að þau teljast nú vera skip sem eru 15 metrar að skráningarlengd eða styttri í stað 12 metra áður.

Þá var sett ákvæði til bráðabirgða um að fram til 1. janúar 2021 geta handhafar skipstjórnarskírteinis á skipum sem eru styttri en 12 metra að skráningarlengd sótt um uppfærslu réttindanna í 15 metra uppfylli þeir sett skilyrði.

Á upplýsingasíðu Samgöngustofu www.samgongustofa.is/SS15 má finna allar helstu upplýsingar og þær kröfur sem koma fram í nýrri heildarreglugerð nr. 944/2020 sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur nú gefið út á grundvelli laganna. Þar kemur fram að til þess að sækja um uppfærslu <12 metra skipstjórnarskírteinis í <15 metra þurfa handhafar að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

· Hefur verið lögskráður sem skipstjóri í a.m.k. 12 mánuði
· Uppfyllir kröfur laga og reglugerðar um aldur, menntun og heilbrigði
· Hefur lokið öryggisfræðslunámi smáskipa
· Hefur lokið viðurkenndu námskeiði í skyndihjálp

Þeir sem hófu nám til réttinda eftir 1. september 2020 fá sjálfkrafa réttindi <15 metra.

Sjá nánar:
· Upplýsingasíðu Samgöngustofu um uppfærslu skipstjórnarréttinda úr <12 metra í <15 metra
· Lög um breytingu á lögum um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, nr. 30/2007, með síðari breytingum (smáskipaviðmið og mönnunarkröfur).
· REGLUGERÐ um skipstjórnar- og vélstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum.

Rettindi_ur12-15