Yfirlýsing ráðherra um hafnarríkiseftirlit

11.5.2017

Hinn 4. maí sl. var undirrituð ný alþjóðleg yfirlýsing sem stuðla á að vernd úthafanna og auknu siglingaöryggi. Að yfirlýsingunni stóðu stjórnvöld siglingaþjóða við Atlantshaf og Kyrrahaf ásamt fulltrúum fleiri ríkja og hagsmunasamtaka. Undirritunin fór fram á sameiginlegri ráðstefnu um hafnarríkiseftirlit (Port State Control) sem haldin var í Vancouver í Kanada í byrjun maí. Stjórnvöld í Kanada efndu til ráðstefnunnar og buðu til þátttöku tveimur samtökum um hafnarríkiseftirlit, annars vegar Paris MoU með 27 aðildarríki í Evrópu ásamt Kanada og Rússlandi og hins vegar Tokyo MoU með 20 aðildarríki sem liggja að Kyrrahafi.

Hafnarríkiseftirlitið hefur það að markmiði að koma í veg fyrir siglingar undirmálsskipa sem leiða kann til manntjóns, eignatjóns og skaða á lífríki sjávar. Unnið er að þessu markmiði með skoðun yfirvalda aðildarlandanna, eftir samræmdum reglum, á tilteknu hlutfalli erlendra skipa sem leggjast að bryggju. Eftirlitsmenn gera reglubundnar skoðanir á erlendum skipum þar sem fjölmörg atriði eru skoðuð samkvæmt kerfi sem haldið er utan um með miðlægum gagnagrunni hafnarríkiseftirlitsins. Getur skoðunin innifalið allt frá yfirferð skipspappíra til heildarskoðunar skipsins.

Með þátttöku sinni hafa aðildarlöndin 47 innan Paris MoU og Tokyo MoU skuldbundið sig til að vinna áfram að þessum sameiginlegu markmiðum, að útrýma siglingum skipa sem eru hættuleg fólki og umhverfi. Aðild að samtökum um hafnarríkiseftirlit eiga, auk landanna, hagsmunasamtök útgerða, flokkunarfélaga, samtök sjómanna, Alþjóðasiglingamálastofnunin IMO og fleiri sem eiga mikilla hagsmuna að gæta.

Með yfirlýsingunni er þess vænst að auðveldara reynist að stuðla að framgangi nýrra, alþjóðlegra stefnumála sem miða að því að þrýsta á stjórnvöld og eigendur undirmálsskipa að fara að alþjóðlegum kröfum um siglingaöryggi. Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarmálaráðherra skrifaði undir yfirlýsinguna fyrir hönd Íslands,  en ráðstefnuna sóttu ásamt honum, Sigurbergur Björnsson skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu og aðstoðarmaður ráðherra, Ólafur Einar Jóhannsson. Frá Samgöngustofu sótti ráðstefnuna  Einar Jóhannes Einarsson,  fagstjóri hafnarríkiseftirlits.

Tvo Eitt .