14 viðburðir um land allt í tilefni minningardagsins

18.11.2019

EMM_0810

Í gær, sunnudaginn 17. nóvember, var þeirra minnst sem látist hafa í umferðarslysum á Íslandi. Efnt var til athafnar í áttunda sinn í Reykjavík og voru sambærilegar athafnir haldnar á 14 stöðum á landinu í samvinnu við sveitarfélögin og Slysavarnafélagið Landsbjörg. Hliðstæðar athafnir fóru fram víða um heim undir merkjum Sameinuðu þjóðanna sem hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember þessari minningu. Að þessu sinni var sjónum sérstaklega beint að aðstandendum þeirra sem hafa slasast eða látist í umferðinni.

EMM_0795 Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra sveitastjórnar- og samgöngumála fluttu erindi ásamt Ásu Ottesen en hún sagði frá reynslu sinni sem aðstandandi. Viðbragðsaðilum voru færðar þakkir fyrir fórnfúst og óeigingjarnt starf sitt við björgun og aðhlynningu þegar umferðarslys á sér stað.

Að athöfn lokinni buðu Slysavarnadeildir í Reykjavík og á Seltjarnarnesi upp á heitt súkkulaði með rjóma, kaffi, kleinur og smákökur.

Þakklæti til viðbragðsaðila er Ásu efst í huga

EMM_0804Ása Ottesen snerti við gestum athafnarinnar þegar hún flutti ávarp sem var tileinkað minningu bróður hennar Marinós Kristins en hann lést aðeins tveggja ára gamall í umferðarslysi árið 1997. Móðir Ásu var einnig í bílnum og slasaðist illa en náði bata eftir nokkrar vikur á gjörgæslu. Tuttugu og tveimur árum síðar, þann 1. júní 2019, lenti systir Ásu, Jóna Elísabet Ottesen í alvarlegu bílslysi ásamt dóttur sinni Uglu. Jóna hlaut alvarlegan mænuskaða og þarf að notast við hjólastól. Hún er í endurhæfingu á Grensás og verkefnin hennar framundan eru stór og erfið. Ugla dóttir hennar slapp með minniháttar áverka og þakkaði Ása það helst því að Ugla var rétt fest í góðum bílstól. Þær mæðgur Ugla og Jóna voru báðar viðstaddar athöfnina. Ása vakti athygli á nauðsyn þess að úrræði, aðstaða, þjónusta og endurhæfing slasaðra yrði bætt en hún telur mikið vanta upp á að þau mál séu í lagi á Íslandi. Samgöngustofa og Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið þakkar Ásu og fjölskyldu hennar fyrir þeirra þátttöku í athöfninni.

Fimm látnir á árinu

EMM_0797

Í erindi Sigurðar Inga Jóhannessonar ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála kom fram að um það bil 4.000 einstaklingar láta lífið og hundruð þúsunda slasast í umferðinni í heiminum á degi hverjum. Enn fleiri þurfa að takast á við áföll, sorgir og eftirsjá af völdum þessa. Segja má að allir upplifi með einum eða öðrum hætti afleiðingar umferðarslysa. Vart er til sá einstaklingur sem þekkir ekki einhvern sem lent hefur í alvarlegu slysi í umferðinni. Frá fyrsta skráða banaslysinu á Íslandi hafa 1578 látist í umferðinni, þar af fimm manns á þessu ári.

Sambærilegar athafnir víða um land

EMM_0820 Athöfn í Reykjavík var við þyrlupall bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. Dagurinn er ekki aðeins tileinkaður minningu látinna í umferðinni heldur hefur skapast sú venja hér á landi að heiðra þær starfsstéttir sem sinna björgun og aðhlynningu þegar umferðarslys verður. Forseti Íslands
Guðni Th. Jóhannesson færði viðbragðsaðilum þakkir fyrir hönd þjóðarinnar og að lokinni athöfn fór hann færandi hendi með brauð og bakkelsi inn á kaffistofu starfsfólks bráðamóttökunnar svo að þau sem þar sinntu störfum sínum fengju einnig notið.

Í samvinnu við sveitarfélögin og Slysavarnafélagið Landsbjörg voru sambærilegar athafnir haldnar á 14 stöðum á landinu. Þar má nefna athafnir á Reykjanesi, Dalvík, Eskifirði, Ólafsfirði, Siglufirði, Patreksfirði, Mývatnssveit, Breiðdalsvík, Árnessýslu, Vestmannaeyjum og Höfn í Hornafirði.

Siglu1 Frá athöfninni á Siglufirði

Olafs3 Frá athöfninni á Ólafsfirði

Patro1 Frá athöfninni á Patreksfirði

Vestm3Frá athöfninni í Vestmannaeyjum

Eski2 Frá athöfninni á Eskifirði

Myvatn1 Frá athöfninni í Mývatnsveit

EMM_0769Þyrla Landhelgisgæslunnar lendir á þyrlupallinum við bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi.