Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa

Þóranna M. Sigurbergsdóttir sagði sögu sína en hún missti son sinn Sigurjón Steingrímsson aðeins 17 ára gamlan í umferðarslysi á Reykjanesbrautinni. Sigurjón hefði orðið 40 ára þennan dag 18. nóvember.

19.11.2018

Sunnudaginn 18. nóvember var þeirra minnst sem látist hafa í umferðarslysum á Íslandi. Efnt var til athafnar í sjöunda sinn og er hliðstæð athöfn víða um heim að tilhlutan Sameinuðu þjóðanna sem hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember þessari minningu. Athöfnin fór fram við þyrlupallinn við Landspítalann í Fossvogi. Minningardagur 2018 var tileinkaður minningu þeirra sem látist hafa í umferðinni og ábyrgðinni sem hver og einn ber. 

MISSTI 17 ÁRA SON SINN

Þóranna M. Sigurbergsdóttir snerti við gestum athafnarinnar þegar hún flutti ávarp sem var tileinkað minningu sonar hennar Sigurjóns Steingrímssonar en hann lést aðeins 17 ára gamall í umferðarslysi á Reykjanesbrautinni í maí árið 1996.  Sigurjón hefði orðið 40 ára þennan dag hefði hann lifað. Samgöngustofa og Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið þakkar Þórönnu og fjölskyldu hennar fyrir þeirra þátttöku í athöfninni. 

13 LÁTNIR Á ÁRINU

Um það bil 4.000 einstaklingar láta lífið og hundruð þúsunda slasast í umferðinni í heiminum á degi hverjum. Enn fleiri þurfa að takast á við áföll, sorgir og eftirsjá af völdum þessa. Segja má að allir upplifi með einum eða öðrum hætti afleiðingar umferðarslysa. Vart er til sá einstaklingur sem þekkir ekki einhvern sem lent hefur í alvarlegu slysi í umferðinni. Á Íslandi hafa 13 manns látist á þessu ári. 

Minningardagur2018-2018005b

MINNINGARATHÖFNIN Í REYKJAVÍK


Athöfn var við þyrlupall bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi í Reykjavík sem hófst klukkan 16:00 og var boðað til mínútu þagnar kl 16:15. 
Dagurinn er ekki aðeins tileinkaður minningu látinna í umferðinni heldur hefur skapast sú venja hér á landi að heiðra þær starfsstéttir sem sinna björgun og aðhlynningu þegar umferðarslys verður. Þeim eru færðar miklar þakkir.

SigurdurIngi

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra þekkir afleiðingar umferðarslysa af eigin raun en hann missti báða foreldra sína í bílslysi í Svínahrauni fyrir rúmum 30 árum. Ráðherra nefndi í ræðu sinni að stöðugt sé verið að leitast við að bæta vegakerfið og öryggi vegfarenda.  Mannleg hegðun er það sem skiptir mestu máli, að fara eftir reglum og aka eftir aðstæðum. Vegfarendur bera einnig mikla ábyrgð.

Þóranna M. Sigurbergsdóttir flytur ávarp

Þóranna M. Sigurbergsdóttir flutti ávarp í minningu sonar hennar og sagði frá erfiðri lífsreynslu í kjölfar slyssins. 

Starfsstéttum eru færðar þakkir fyrir mikilvægt og óeigingjarnt starf þeirra.