Árangursstjórnunarsamningur

9.6.2016

Innanríkisráðherra og forstjóri Samgöngustofu undirrituðu í dag árangursstjórnunarsamning milli innanríkisráðuneytisins og SGS. Með samningnum er kveðið á um gagnkvæmar skyldur aðila um áherslur í uppbyggingu og rekstri Samgöngustofu, forgangsröðun lögbundinna verkefna og að verkefni SGS séu unnin á faglegan hátt. Þá er fest í sessi ákveðið samskiptaferli milli ráðuneytisins og stofnunarinnar um ákvæði samningsins.

Árangursstjórnunarsamningur ráðuneytisins og SGS nær til þjónustu, fjármála, ferla og mannauðs og til áherslu á góða stjórnunarhætti. Þá eru taldar upp ýmsar gagnkvæmar skyldur samningsaðila. Nefna má sem dæmi að lögð er áhersla á að auka rafræna þjónustu, m.a. að öll umsóknarform stofnunarinnar verði rafræn, fleiri kerfi stofnunarinnar aðlöguð til að styðja við rafræna sjálfsafgreiðslu og að innleiða rafrænar undirskriftir.

Þetta er fyrsti þjónustusamningur ráðuneytisins og SGS. Samninginn undirrituðu Ólöf Nordal innanríkisráðherra og Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu.