Vert að hafa í huga við vetrarakstur

20.10.2014

Það má búast við snjó og hálku víða á vegum landsins í dag og næstu daga auk þess sem víða getur orðið hvasst. Samöngustofa vill hvetja ökumenn til að leita sér upplýsinga um færð og veður áður en lagt er upp í langferð. Tími rúðusköfunnar og vetrardekkjanna er að segja má runnin upp og ekki aðeins það því hér má sjá lista yfir þau atriði sem vert er að hafa í huga og geta aukið öryggi okkar í vetur.

  • Það er mikilvægt að hjólbarðar séu góðir heilsárs- eða vetrarhjólbarðar með góðu mynstri, réttum loftþrýstingi og að þeir hæfi aðstæðum. Um næstu mánaðarmót, 1. nóvember, verður sú breyting á reglum að lágmarksdýpt í mynstri hjólbarða má ekki vera minni en 3mm og gildir það fram til 14. apríl. Á milli 15. apríl og 31. október má mynsturdýptin ekki vera minni en 1,6mm.

  • Með því að tjöruhreinsa dekk reglulega yfir vetrartímann eykst veggrip þeirra mikið. Tjaran myndar hála húð á mynstri hjólbarðanna sem mikilvægt er að hreinsa af.

  • Þess skal gætt að hreinsa snjó vel af öllum bílnum sérstaklega af rúðum og ljósum og ljósin þurfa að vera í lagi.  

  •  Gæta þarf að því að þurrkublöð séu óskemmd og gott er að hreinsa tjöru af þeim líkt og hjólbörðunum.

  • Hafa þarf nægan rúðuvökva og passa að hann sé frostþolinn.

  • Nagladekk eru leyfileg frá 1.nóvember til 14.apríl, en bönnuð utan þess tíma nema aðstæður gefi tilefni til annars.

  • Það getur skipt sköpum að í bílnum sé hlýr fatnaður sem hægt er að bregða sér í ef á þarf að halda.

  • Gluggaskafa, snjóskófla og handkústur eru verkfæri sem ættu alltaf að vera til staðar. Auk þess borgar sig að hafa góð sólgleraugu tiltæk því sól er lágt á lofti og getur skert mjög útsýni yfir vetraramánuðina.

Að lokum skal tekið fram að mikilvægt er að aka ætíð í samræmi við aðstæður, draga úr hraða í hálku og hafa nægjanlegt bil milli bíla.