Bætt hegðun ökumanna

Sjá má árangur af Höldum fókus herferðinni

4.4.2019

""

Í byrjun þessa árs var hrundið af stað fjórðu herferðinni í nafni Höldum fókus átaksins. Tilgangurinn var nú sem fyrr að varpa ljósi á þá miklu hættu sem stafar af notkun snjallsíma á meðan á akstri stendur. Að þessu sinni stóðu að baki herferðinni; Samgöngustofa, Sjóvá og Strætó. Farin var nýstárleg leið þar sem herferðin tengdist Instagram reikningi fólks og þannig komst það inn í einstaka upplifun sem tengdist áhugasviði viðkomandi. Tæknina og hugmyndina að baki þessu vann Tjarnargatan, en í samstarfi við Google er notuð gervigreind til að sérsníða sögulínu að lífstíl hvers og eins.

Í könnun sem Gallup gerði mánuð eftir að herferðin fór af stað kom fram að þessi herferð líkt og fyrri nær mikill athygli fólks og 7 af hverjum 10 sem sáu herferðina telja sig knúna til að hætta alfarið, mikið eða að einhverju leyti, símanotkun undir stýri.  Í könnuninni kemur einnig fram að 71% landsmanna hafi, á rúmum mánuði, orðið vör við herferðina og 43% mjög oft eða oft. 56% þeirra sem sjá auglýsinguna telja boðskapinn komast vel eða mjög vel til skila. 

 Í viðhorfskönnun sem Gallup gerði í lok síðasta árs, fyrir Samgöngustofu, kemur fram að 53% ökumanna segja farsímanotkun annarra ökumanna valda sér mikilli truflun. 100% þeirra sem spurðir voru telja það hættulegt að skrifa texta eða skilaboð á símann og 87% telja notkun farsíma án handfrjáls búnaðar hættulega. Það er því ljóst hve hættulega hegðun fólk telur þetta vera en það kemur einnig fram í könnuninni að margir þeir sem telja hegðunina hættulega nota sjálfir farsíma með þeim hætti sem um ræðir. 

Á myndunum hér að neðan sem eru úr könnun síðasta árs má sjá dæmi um að töluverður árangur hefur náðst í breyttu viðhorfi og hegðun ökumanna er varðar hættulega notkun farsíma við akstur.

Hversu oft notar þú farsíma við akstur til að skoða samfélagsmiðla

Hér má sjá niðurstöður og þriggja ára samanburð könnunar Gallup á því hve oft ökumenn nota farsíma til að lesa skilaboð á meðan á akstri stendur.

Hversu oft notar þú farsíma við akstur til að skoða samfélagsmiðla Hér má sjá niðurstöður og þriggja ára samanburð könnunar Gallup á því hve oft ökumenn nota farsíma til að skoða samfélagsmiðla..

Þótt þessi niðurstaða sé vísir af góðu er ljóst að ekki má sofna á verðinum með að fræða ökumenn og minna á þá miklu hættu sem stafar af akstri „undir áhrifum“ farsíma. Eitt atriði er þvert á þessa þróun en það er að fólk virðist í auknu mæli nota símann til að stjórna tónlist á meðan á akstri stendur. Það er mikilvægt að hafa í huga að mörg alvarleg slys eru rakin til farsímanotkunar ökumanns en það getur aldrei talist réttlætanlegt eða þess virði að viðhafa í ljósi alvarlegra afleiðinga.